Guzman mögulega framseldur til Bandaríkjanna

09.01.2016 - 23:05
Mexican drug lord Joaquin "El Chapo" Guzman, right, is escorted by soldiers and marines to a waiting helicopter, at a federal hangar in Mexico City, Friday, Jan. 8, 2016. The world's most wanted drug lord was recaptured by Mexican marines
Hermaður gætir Guzmans.  Mynd: AP
Mexíkóski eiturlyfjabaróninn Joaquin Guzman þarf að sitja réttarhöld þar sem ákveðið verður hvort hann verður framseldur til Bandaríkjanna. Þetta staðfestu yfirvöld í Mexíkó í kvöld.

Skrifstofa ríkissaksóknara í Mexíkó sagði réttarhöldin byggja á tveimur beiðnum bandarískra yfirvalda frá því í fyrra. Engar upplýsingar voru gefnar um hvenær réttarhöldin fara fram. Lögmenn Guzmans fá þrjá daga til þess að mæla gegn framsalinu og tuttugu til viðbótar til þess að færa sönnur á mál sitt. Skrifstofa ríkissaksóknara sagði að sannanir verði bornar fram gegn mótmælunum.

Guzman var handsamaður á föstudag eftir hálft ár á flótta. Enrique Pena Nieto, forseti Mexíkó, kom í veg fyrir framsal hans áður en Guzman flúði úr hámarksöryggisfangelsi í júlí, en nú virðast stjórnvöld tilbúin til þess að endurskoða málið.