Gupta sigraði á Reykjavíkurskákmótinu

16.03.2016 - 23:22
Mynd með færslu
 Mynd: Skáksamband Íslands
Indverski stórmeistarinn, Abhijeet Gupta tryggði sér sigur á 31. Reykjavíkurskákmótinu sem lauk í dag. Gupta hafði vinnings forskot á næstu menn fyrir umferðina í dag og dugði því jafntefli til þess að tryggja sér sigurinn.

Gupta hafði hvítt í lokaumferðinni gegn ítalska stórmeistaranum Francesco Rambaldi og aðstæður til jafnteflis því allar hinar ákjósanlegustu. Gupta fór sér að engu óðslega og gerðu þeir félagar stórmeistarajafntefli í aðeins 30 leikjum og er Gupta því einn efstur með 8,5 vinninga af 10 mögulegum. Frammistaða Gupta verður að teljast afar góð enda aðeins sá 10 stigahæsti í mótinu.

Rússinn Dmitry Andreikin sigraði enska stórmeistarann Gawain Jones nokkuð örugglega í lokaumferðinni og tryggði sér þar með sinn 8. vinning og 2. sætið í mótinu. Níu skákmenn eru jafnir í 3.-11. sæti með 7.5 vinninga.

Hjörvar Steinn Grétarsson, yngsti stórmeistari Íslendinga, varð efstur heimamanna með 7 vinninga og endar í 12. - 22. sæti. Árangur Hjörvars verður að teljast nokkuð góður, enda tapaði hann aðeins einni skák, í 5. umferð gegn ungverska ungstirninu GM Richard Rapport.

Mynd með færslu
Jón Júlíus Karlsson
íþróttafréttamaður