Gunnar hættur með Gróttu

21.04.2017 - 14:41
Mynd með færslu
 Mynd: Tomasz Marian Kolodziejski  -  RÚV
Gunnar Andrésson handknattleiksþjálfari karlaliðs Gróttu frá árinu 2013 hefur ákveðið að hætta sem þjálfari liðsins. Þetta staðfesti hann í samtali við RÚV rétt í þessu.

Gunnar hefur náð góðum árangri með Gróttuliðið en það datt út í 8-liða úrslitum úrslitakeppninnar nýverið gegn toppliði deildarinnar, FH.  Árið þar á undan endaði liðið í 5. sæti deildarinnar, þá sem nýliðar.

Ljóst var að samningur Gunnars við félagið væri að renna út en hann skrifaði undir þriggja ára samning árið 2013.

„Ég lýk þessu samstarfi á góðu nótunum og hef ákveðið að taka mér árs frí frá þjálfun,“ sagði Gunnar í samtali við RÚV.

Ekki er ljóst hver tekur við af Gunnari en nafn Kára Garðarssonar núverandi þjálfara kvennaliðs Gróttu hefur verið nefnt til sögunnar.  Ljóst er að Kári hættir með kvennalið Gróttu að lokinni úrslitakeppni.  Þá er Patrekur Jóhannesson einnig á heimleið og Stefán Árnason án félags eftir að hafa fengið reisupassann frá Selfyssingum.

Gunnar Birgisson
íþróttafréttamaður