Gunnar Bragi: Stóð ekki til að kjósa

28.02.2014 - 13:15
Mynd með færslu
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir að Framsóknarflokkurinn hafi aldrei lofað að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald á aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Þjóðaratkvæðagreiðsla komi ekki til greina nema ríkisstjórnin ákveði að halda viðræðunum áfram.

Meira en fjörutíu þúsund hafa nú skrifað undir áskorun til Alþingis um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort aðildaviðræðum við Evrópusambandið verði haldið áfram. 38.000 skrifuðu undir áskorun til forseta Íslands um að synja öðrum Icesave-samningnum, en þá var um að ræða lagafrumvarp en ekki þingsályktunartillögu, eins og liggur nú fyrir Alþingi.

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði í fréttum RÚV í gær að loforð flokksins um þjóðaratkvæðagreiðslu hafi verið sett fram sem varnagli. „Segjum sem svo að við hefðum ekki lent með nei-flokki, sem sagt, hefðum lent með flokki sem vildi halda áfram þá ætluðum við að standa á þessu loforði okkar.“

Gunnar Bragi segir að þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna hafi aldrei staðið til. „Loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu: Framsóknarflokkurinn hefur nú ekki talað með slíkum hætti. Það var hins vegar þannig, fyrir kosningar, þá var verið að spyrja um þetta, hvort þetta kæmi til greina, auðvitað halda menn slíku opnu komi til þess að fara í stjórnarsamstarf með einhverjum flokki eins og Samfylkingunni eða einhverju slíku, þá halda menn slíku opnu. Síðan er gerður stjórnarsáttmáli við annan flokk og það er ekkert óeðlilegt að hlutirnir breytist eftir það.“

Samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birt var í morgun vilja 82 prósent landsmanna að ákvörðun um framhald viðræðna verði borin undir þjóðaratkvæði. Gunnar Bragi segir það ekki koma sér á óvart. „Ég fagna því að þjóðin hefur áhuga á þessu máli, kemur mér ekkert á óvart miðað við málin hafa þróast í þinginu og hvernig fjölmiðlar hafa fjallað um málið, mjög einhliða og sérstakur fréttaflutningur. Þannig að ég er ekkert hissa á því að þetta sé með þessum hætti.“

Gunnar Bragi segir að það komi þó ekki til greina að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um viðræðuslit. Það sé alveg ljóst hvað ríkisstjórnin ætli sér að gera í málinu. „En verði hins vegar farið áfram í viðræður, taki ríkisstjórnin ákvörðun um það að halda áfram viðræðum, þá munum við að sjálfsögðu efna til þjóðaratkvæðagreiðslu.“

sunnav@ruv.is