Gullbrúðkaup hjá Margréti og Hinrik

10.06.2017 - 14:48
Margrét Danadrottning og Hinrik prins eiga brúðkaupsafmæli í dag - gullbrúðkaup. Þau gengu í hjónaband fyrir 50 árum þann 10. júní 1967 og var þá mikið um dýrðir í Danaveldi.

Kynntust í Lundúnum

Margrét var þá prinsessa, en hún varð drottning 14. janúar 1972 þegar faðir hennar Friðrik níundi lést.  Margrét og Hinrik kynntust í Lundúnum árið 1965. Þá var Margrét 25 ára, en Hinrik 31 árs. Margrét var við nám í London School of Economics, en Hinrik starfaði sem diplómat í franska sendiráðinu.  Margrét og Hinrik eiga tvo syni Friðrik og Jóakim, fædda 1968 og 1969.

Hóflega er haldið upp á gullbrúðkaupið. Hjónin afhjúpuðu höggmynd í einkagarði sínum við Friðriksborgarhöll að viðstöddum sonum, tengdadætrum og barnabörnum. Danskir fjölmiðlar, eins og Jyllandsposten,  hafa hins vegar verið duglegir við að rifja upp brúðkaupið fyrir 50 árum og líf þeirra hjóna eftir það.

 

Mynd með færslu
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV