Guðni bauð Gervais upp á grænmetisfæði

21.04.2017 - 16:48
Mynd með færslu
 Mynd: forseti.is  -  RÚV
Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid buðu breska grínistanum Ricky Gervais og sambýliskonu hans, Jane Fallon, í hádegisverð á Bessastöðum. Vel fór á með Guðna og Gervais en forsetinn braut ísinn með því að vitna í myndaröð grínistans af Fallon þar sem hún er mynduð ein í allskyns aðstæðum og sögð vera með vinum sínum: „Viltu ekki fá mynd af þér með öllum vinunum þínum?“ á forsetinn að hafa spurt. Þá mynd má sjá hér að ofan.

Gervais er staddur hér á landi með uppistandssýningu sína Humanity - fyrri sýningin var í gærkvöld en sú seinni verður í kvöld. Og þar upplýsti Gervais að hann væri hættur að borða kjöt, væri orðinn grænmetisæta.

Því var aðeins grænt í boði þegar Gervais og Allen fóru í hádegismat á Bessastöðum ásamt Sögu Garðarsdóttur, Ara Eldjárn, Ísleifi B. Þórhallssyni hjá Senu og mökum. Samkvæmt heimildum fréttastofu var boðið upp á einfalt salat í forrét, kúrbít í aðalrétt og epli og jarðaber með rjóma í eftirrétt.

Samkvæmt heimildum fréttastofu fór vel á með Guðna og Gervais og umræðurnar um matarborðið snerust meðal annars um að hverju mætti gera grín og hverju ekki.

Þá mun Gervais hafa verið undrandi á því hversu lítil öryggisgæsla hafi verið á Bessastöðum og haft á orði að hann hefði meiri gæslu í kringum sig. Hér að neðan má svo sjá mynd af Instagram-síðu Gervais úr myndaröðinni sem forsetinn vísaði til. Fallon og Gervais hafa verið saman síðan 1982 en hún er metsöluhöfundur á Bretlandi og framleiðandi.  Þau eiga saman köttinn Ollie og búa í Hampstead.

 

Jane, shopping in Reykjavic with all her friends.

A post shared by Ricky Gervais (@rickygervais) on

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV