Guðmundur Ingi: „Þetta er góður félagsskapur“

21.01.2016 - 21:09
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Ingi Þorvaldsson  -  Facebook
„Þetta er góður félagsskapur. Mér líst stórkostlega á þetta, mér finnst þetta bara æðislegt,“ segir Guðmundur Ingi Þorvaldsson leikari sem tilnefndur er til National Film Awards í Bretlandi fyrir leik í aðalhlutverki í kvikmyndinni Chasing Robert Parker.

Leikararnir sem einnig eru tilnefndir eru engir nýliðar, Daniel Craig fyrir nýjustu James Bond myndina Spectre, Colin Firth sem tilnefndur er fyrir Kingsman - Secret Service, Colin Farrel sem tilnefndur er fyrir Lobster og Tom Hardy fyrir Legend.

KvikmyndGríms Hákonarsonar, Hrútar, er tilnefnd sem besta erlenda mynd ársins

Tilnefningarnar voru settar á vefinn 10. janúar en Guðmundur Ingi segist hafa frétt fyrst af tilnefningunni um átta leytið í kvöld þegar hann var að ganga inn á leiksýningu. „Þessi verðlaun eru eins og Eddan í Bretlandi,“ segir hann ánægður. „Myndin sem ég leik í er low budget og ég veit ekki betur en að hún hafi bara verið sýnd á Íslandi en hún var heimsfrumsýnd á RIFF í september. Þetta er æðislegur heiður fyrir mig, leikstjórann Daniel Florencio, Snorra Þórisson í Pegasus og Patrick Regis sem leikur á móti mér í myndinni.“  

Chasing Robert Parker er einnig tilnefnd í flokki spennumynda. Þar keppir hún á móti kvikmyndum eins og nýjustu Star Wars myndinni Force Awakens og Spectre.

Guðmundur Ingi segist vonast til að geta verið viðstaddur verðlaunaafhendinguna sem fram fer 31. mars. „Vonandi á ég eftir að fara þangað og njóta mín í þessum félagsskap.“

 

 

Í góðum félagsskap !! Tilnefndur til bresku kvikmyndaverðlaunanna!! NFA(national film awards)Best ActorTom Courtenay...

Posted by Gudmundur Ingi Thorvaldsson on 21. janúar 2016

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV