Guðlaugur Þór vill fá Breta í EFTA

16.07.2017 - 09:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur rætt við utanríkisráðherra Bretlands, Boris Johnson, um að Bretar gangi í Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA, eftir útgöngu þeirra úr Evrópusambandinu.

Breska dagblaðið The Telegraph segir að þetta hafi verið rætt á fundi utanríkisráðherranna í júní. Guðlaugur Þór segir í samtali við blaðið að Bretar myndu gefa samtökunum meiri vigt á alþjóðavísu. Í samtali við fréttastofu segir Guðlaugur mikilvægt að Ísland og EFTA-ríkin njóti góðs af þeim fríverslunarsamningum sem Bretar muni gera á næstunni.

„Allir munu vilija gera fríverslunarsamning við fimmta stærsta efnahagsveldi heims og það skiptir máli fyrir Íslendinga og EFTA-ríki að njóta góðs af því. Bretar stofnuðu EFTA á sínum tíma og það kæmi til greina að EFTA vinni með Bretum þegar kemur að fríverslunarsamningum eða Bretar gerðust aðilar að samtökunum. Aðalatriðið er að við njótum góðs af þeim fríverslunarsamningum sem gerðir verða í framtíðinni,“ segir hann.

Aðspurður segir hann að Íslendingar gætu bæði notið góðs af samningum við ný ríki og einnig gætu núverandi samningar dýpkað. Samtökin hafi lengi viljað ná samningum við Kanada og Bandaríkin, en í samstarfi við Breta aukist líkurnar á því að það takist. EFTA hefur einnig unnið að samningum við lönd á borð við Japan, Indlands og Indónesíu, sem og stækkandi markaða á borð við Ástralíu, Nýja-Sjálands, sem og Suður-Ameríku og Afríku þar sem eru stækkandi millistéttir.

Enn á hugmyndastigi

EFTA samastendur af fjórum ríkjum, Íslandi, Lichtenstein, Noregi og Sviss. Bent hefur verið á að breska efnahagskerfið sé margfalt stærra en EFTA-ríkjanna samanlagt og hætta sé á að EFTA taki einfaldlega samtökin yfir vegna stærðar sinnar. Guðlaugur Þór segir að þrátt fyrir að ríki EFTA séu misstór ríki gott jafnvægi milli þeirra. „Bretar stofnuðu EFTA á sínum tíma en þessar hugmyndir eru ekki komnar á það stig að verið sé að ræða aðild Breta að samtökunum. Þetta er einfaldlega ein sviðsmyndin sem verið er að skoða innan EFTA. Við höfum rætt þetta en umræður innan samtakanna eru ekki komnar á það stig að verið sé að bjóða neinum aðild,“ segir Guðlaugur.

Aðspurður segist Guðlaugur hafa fengið jákvæð viðbrögð frá breska utanríkisráðherranum. Breskar þingmannanefndir og embættismenn hafi heimsótt EFTA til þess að afla sér upplýsinga enda þurfi Bretar að kanna alla möguleika eftir útgöngu sína úr ESB.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir