Guðjón Valur gerir upp öll Evrópumótin átta

11.01.2016 - 12:07
Guðjón Valur Sigurðsson landsliðsfyrirliði í handbolta er á leiðinni á sitt níunda Evrópumót í röð með íslenska landsliðinu. Ísland komst fyrst inn í lokakeppni EM þegar mótið var haldið í Króatíu árið 2000 og það var einmitt fyrsta stórmót Guðjóns.

Guðjón Valur var langyngstur í landsliðinu á hans fyrsta stórmóti sem var EM 2000 í Króatíu. „Ég var tvítugur og ég held að næsti maður hafi verið 26 ára. Maður þekkti eiginlega engan. Það voru allir góðir við mig og tilbúnir að hjálpa. En mér fannst ég svolítið utangátta.“

DJ Ötzi kom inn í klefa

„Eitt af því eftirminnilegasta frá EM 2010 var að DJ Ötzi kom inn í klefa eftir að við unnum bronsið og tók lagið bara án undirleiks og alls. Hann stóð þarna bara með hvítu húfuna inn í klefa hjá okkur. Þannig fór húfan af hausnum á honum yfir á höfuðið á Óla,“ sagði Guðjón Valur meðal annars um EM 2010 í Austurríki þegar Ísland vann til bronsverðlauna.

RÚV fékk Guðjón Val til að rifja upp það eftirminnilegasta að hans mati frá Evrópumótunum átta. Í spilaranum hér fyrir ofan má sjá hann fara yfir sínar helstu minningar frá EM.

Ísland á EM í handbolta

2000 í Króatíu - 11. sæti
2002 í Svíþjóð - 4. sæti
2004 í Slóveníu - 13. sæti
2006 í Sviss - 7. sæti
2008 í Noregi - 11. sæti
2010 í Austurríki - 3. sæti
2012 í Serbíu - 10. sæti
2014 í Danmörk - 5. sæti
2016 í Póllandi - ?

Mynd með færslu
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson
íþróttafréttamaður