Guardiola vill þjálfa á Englandi

05.01.2016 - 18:52
epa05015696 Munich's head coach Pep Guardiola gestures during the German Bundesliga soccer match between Bayern Munich and VfB Stuttgart in Munich, Germany, 07 November 2015.  EPA/ PETER KNEFFEL (EMBARGO CONDITIONS - ATTENTION - Due to the
Pep Guardiola er líklega á leiðinni til Englands.  Mynd: EPA  -  dpa
Knattspyrnustjórinn Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Bayern Munchen, áformar að taka við liði á Englandi næsta sumar þegar samningur hans við þýska stórveldið rennur út. Guardiola staðfesti þetta í dag.

Þessi 44 ára sigursæli Spánverji hefur þrálátlega verið orðaður við bæði Manchester City og Manchester United en einnig hefur hann verið orðaður við Arsenal og Chelsea.

„Ég vil prófa að búa í nýrri borg og vil starfa í Englandi. Ég hef fengið nokkur tilboð frá liðum í Englandi en ekki skrifað undir neitt ennþá,“ sagði Guardiola.

„Núna hef ég tækifæri til að starfa í Englandi. Ég er á réttum aldri og tel að þetta sé rétta skrefið fyrir mig. Það er ástæðan fyrir þessari ákvörðun.“

Gríðarlega sigursæll
Það er ekki skrýtið að það sé mikil eftirspurn eftir starfskröftum Pep Guardiola en hann hefur svo sannarlega verið sigursæll á ferli sínum. Guardiola var í fjögur ár við stjórnvölinn hjá Barcelona og liðið alls 14 titla undir hans stjórn, þar af spænsku deildina þrisvar. Hann er sigursælasti knattspyrnustjóri í sögu Barcelona.

Guardiola tók sér eins árs hlé frá störfum eftir tíma sinn hjá Barcelona en tók við stórliði Bayern Munchen árið 2013. Undir hans stjórn hefur Bayern unnið þýsku Bundesliguna tvisvar og liðið er nú með átta stiga forystu á toppnum þegar deildarkeppnin er hálfnuð.

Guardiola á aðeins eftir að vinna Meistaradeildina með Bayern Munchen og en liðið hefur fallið úr keppni í undanúrslitum síðastliðin tvö ár. Guardiola fær eitt tækifæri til viðbótar í ár og leikur liðið gegn Juventus í 16-liða úrslitum í næsta mánuði. „Að vinna Meistaradeildina myndi kóróna tíma minn hér,“ sagði Guardiola í dag.

Mynd með færslu
Jón Júlíus Karlsson
íþróttafréttamaður