Grunur um spillingu innan IAAF

02.03.2016 - 02:59
epa05101710 (FILE) A file picture dated 14 August 2009 of Lamine Diack, President of the International Athletics Federation (IAAF), during a press conference on a joint meeting of IOC and IAAF in Berlin, Germany. Former IAAF president Lamine Diack was
Lamine Diack, fyrrum forseti IAAF.  Mynd: EPA  -  DPA FILE
Rannsókn er hafin á því hvort rangt hafi verið haft við þegar valið var hvar Ólympíuleikarnir í ár í Ríó, og þeir næstu, í Tókýó 2020, færu fram. Þetta staðfestir starfsmaður dómsmálaráðuneytis Frakklands við Fréttastofu AFP.

Embætti ríkissaksóknara í Frakklandi hóf rannsókn á því í desember hvort eitthvað væri hæft í ásökunum um spillingu við valið á borgunum. Rannsóknin er liður í umfangsmeiri rannsókn sem beint er að Lamine Diack, fyrrum forseta Alþjóða frjálsíþróttasambandsins, IAAF. Hann var handtekinn í fyrra fyrir spillingu og peningaþvætti vegna gruns um að hafa þegið greiðslur fyrir að fresta banni sem vofði yfir rússneskum íþróttamönnum sem höfðu neytt ólöglegra lyfja.

Frönsk yfirvöld rannsaka einnig þátt sonar Diacks, Papa Massata, sem Diack réði sem markaðsráðgjafa IAAF. Alþjóðalögreglan Interpol hefur gefið út handtökuskipun á hendur honum.

Samkvæmt breska fjölmiðlinum Guardian voru feðgarnir milligöngumenn á milli nokkurra stjórnarmanna Alþjóða Ólympíunefndarinnar og borganna sem hrepptu hnossið. Fyrrum forsetinn var ötull stuðningsmaður þess að leikarnir færu fram í Istanbúl í Tyrklandi árið 2020, en eftir auglýsingasamning japansks fyrirtækis við IAAF skipti hann um skoðun.

Að sögn AFP skoða frönsk yfirvöld einnig valið á gestgjöfum heimsmeistaramótsins í frjálsum íþróttum árið 2021, en mótið fer fram í Eugene í Bandaríkjunum.