Grunnskólanemar sem vilja gera tattú

22.08.2017 - 21:49
Hátt í fimm þúsund börn byrjuðu í dag í grunnskóla og sum þeirra hafa þegar ákveðið hvað þau ætla að gera að námi loknu. Kennari sem er að hefja feril sinni segist spennt eins og börnin, þótt álag geti orðið mikið. Hún hafi ekki verið viss um val á starfsgrein, en orðið ástfangin af skólanum því svo margt sé hægt að læra af börnunum.

Alls eru tæplega 50 þúsund börn að hefja nýtt starfsár í grunnskólum landsins í dag og um tíund þeirra að hefja sitt fyrsta starfsár. Það var því mikil eftirvænting og spenna hjá þeim, þótt sum hafi verið ögn hikandi og þótt öryggi í því að hafa pabba eða mömmu með. Í Áslandsskóla í Hafnarfirði eru tveir fyrstu bekkir og hófst dagurinn á því að fá fræðslu og ráðleggingar frá skólastjóranum í samkomusalnum, en síðan gengu nýnemarnir með kennara sínum til skólastofu. 

Nemendur sem fréttastofan ræddi við voru að vonum spenntir yfir þessum nýja kafla í lífi þeirra. Sumir lýstu því yfir að þá hlakkaði mest til að læra sund, en þær Ísabella og Þórunn María voru meira að segja búnar að ákveða hvað tæki við að námi loknu.

„Gera tattú.“
Ætlið þið báðar að verða  tattúkonur?
„Já.“
Ætlið þið að vinna á sama stað kannski?
„Við ætlum að vera saman að gera þetta svo það þurfi ekki að vera allt fullt að bíða.“
Svo það sé ekki biðröð?
„Já. “

Það er ekki  bara að börn séu að byrja í skólanum núna og hefja nýjan feril, það eru líka kennarar sem eru að hefja sinn feril. Þórdís Lilja Þórsdóttir sem er að  ljúka meistaranámi í kennslu, segir spennuna alveg eins mikla hjá sér og hjá börnunum. Hún fékk smá reynslu af kennslu í fyrra þegar hún kenndi samfélagsfræði.

„En er núna að byrja sem umsjónarkennari og fá meiri ábyrgð og kynnast henni.“
Býstu við miklu álagi í starfi?
„Já þetta er álag og ég fann það alveg í fyrra, það koma álagspunktar og meiri ábyrgð að vera með umsjónarbekk af því maður er eins og hænumamma með þau.“
Kvíðin?
„Upp að vissu marki, en það er mest spenningur í gangi.“ 

Þórdís segir brottfall í náminu hafa verið mest eftir BA prófið og launin spili þar inn í, en þeir sem ljúka meistaraprófi ætli flestir í kennslu. Hún ætli að leggja kennslu fyrir sig.

„Já alveg klárlega. Ég var ekki alveg viss, en svo þegar ég kom í skólann varð ég bara ástfangin. Þetta er bara svo gefandi, krakkarnir alltaf að kenna manni eitthvað,“ segir Þórdís Lilja Þórsdóttir
 

 

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV