Grunaður um tvær árásir með viku millibili

22.02.2016 - 11:09
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason  -  RÚV
Karlmaðurinn sem lögreglan lýsti eftir í síðustu viku er grunaður um að hafa ráðist aftur á sama einstakling og fyrir viku. Hann er um 180 sm á hæð og fölleitur og var dökkklæddur og með svarta húfu og svarta hanska. Maðurinn er talinn vera á aldrinum 35-45 ára. Hann er eins og fyrr segir grunaður um tvær alvarlegar árásir á sama einstakling með um viku millibili.

Lögreglan lýsti í síðustu viku eftir vitnum sem gætu sagt til um ferðir mannsins um klukkan átta á mánudagsmorgun, 15. febrúar, um Móabarð í Hafnarfirði. Voru vegfarendur beðnir um að hafa samband við lögreglu ef þeir hefðu orðið mannsins varir. Nú biður lögreglan um upplýsingar um mannaferðir á sama stað, þ.e. um Móabarð, í gærkvöld, 21. febrúar, um klukkan 20. 

Að sögn Árna Þórs Sigmundssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, telur lögreglan líklegt að sami maðurinn hafi verið á ferð í bæði skiptin. Rannsókn lögreglu lýtur að alvarlegum árásum á sama einstaklinginn en lítið sé hægt að segja um rannsóknina að öðru leyti að svo stöddu.

Biður lögreglan þá sem geta veitt upplýsingar um manninn og ferðir hans um að hafa samband við lögreglu í síma 444 1000, en upplýsingum má einnig koma á framfæri á netfangið abending@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.