Grunaðir fíkniefnasmyglarar í farbann

21.01.2016 - 12:25
Héraðsdómur Reykjavíkur
 Mynd: RÚV
Einn Hollendingur og tveir Íslendingar, sem grunaðir eru um að hafa flutt tæplega tuttugu kíló af sterkum fíkniefnum til landsins með Norrænu, voru á þriðjudag úrskurðaðir í mánaðarlangt farbann í Héraðsdómi Reykjavíkur. Fjórði maðurinn, sem er andlega fatlaður, var úrskurðaður í tveggja vikna farabann. Sá úrskurður hefur verið kærður til Hæstaréttar, samkvæmt heimildum fréttastofu.

Mennirnir sátu allir í 12 vikur í gæsluvarðhaldi. Þeim var öllum sleppt skömmu fyrir jól þar sem ekki má hafa menn lengur í gæsluvarðhaldi en 12 vikur nema búið sé að höfða mál fyrir dómstólum.

Aldís Hilmarsdóttir, yfirmaður fíkniefnadeildar, segir í samtali við fréttastofu að rannsókn málsins sé í fullum gangi. Hún sé mjög umfangsmikil og að ekki sé vitað nákvæmlega hvenær henni ljúki.

Fram kom í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, þegar farið var fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum í lok nóvember, að hún væri að reyna að hafa hendur í hári manna sem skipulögðu smyglið í Hollandi. 

Smyglið virðist hafa verið þaulskipulagt. Mennirnir notuðust meðal annars við dulkóðuð textaskilaboð og kortlögðu hvernig bílar keyrðu frá Norrænu. 

Þetta er þriðja stóra fíkniefnamálið með sterk tengsl við Holland sem kemur til kasta lögreglu á skömmum tíma. Hollensk kona var á síðasta ári dæmd í ellefu ára fangelsi fyrir að reyna smygla til landsins 20 kílóum af sterkum fíkniefnum í ferðatöskum.  

Hollenskt par var síðan handtekið við komu til landsins með Norrænu í byrjun september. Það reyndist vera með 209 þúsund MDMA-töflur sem það hafði falið í húsbíl.

 

 

 

 

 

 

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV