Grótta mætir Val í úrslitum

26.02.2016 - 21:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Grótta hafði betur gegn Stjörnunni í undanúrslitum Coca Cola-bikar karla, 25-28, í leik sem fram fór í Laugardalshöll í kvöld. Seltirningar voru sterkari í síðari hálfleik og mæta Val í úrslitum á morgun.

Leikurinn var í járnum í fyrri hálfleik og skiptust liðin á að leiða. Staðan í hálfleik var 13-13 en Aron Dagur Pálsson jafnaði leikinn fyrir Gróttu skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks.

Seltirningar tóku frumkvæðið í síðari hálfleik og náðu fjögurra marka forystu í stöðunni 16-20 þegar seinni hálfleikur var hálfnaður. Stjörnumenn reyndu hvað þeir gátu til að jafna leikinn en leikmenn Gróttu reyndust of sterkir fyrir 1. deildarlið Stjörnunnar sem geta verið stoltir af sinni frammistöðu í keppninni.

Finnur Ingi Stefánsson og Daði Laxdal Gautason voru atkvæðamestir í liði Gróttu með sex mörk hvor. Hjá Stjörnunni var Ari Magnús Þórðarson með sex mörk.

Bikarúrslit karla og kvenna verða í beinni útsendingu RÚV á morgun.

Mynd með færslu
Jón Júlíus Karlsson
íþróttafréttamaður