Gróska í svikmyndaforminu

Lestin
 · 
Sjónvarp
 · 
Menningarefni

Gróska í svikmyndaforminu

Lestin
 · 
Sjónvarp
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
17.10.2016 - 17:00.Anna Gyða Sigurgísladóttir.Lestin
„Leikið heimildaefni sem á ensku kallast mockumentary filmmaking er efni sem lítur út fyrir að vera sönn heimild, en er í rauninni skáldað verk. Stundum er þetta sett fram í alvöru, en nú á dögum er þetta orðinn einn algengasti og vinsælasti miðillinn fyrir grín,“ segir Nína Richter, sjónvarpsrýnir Lestarinnar á Rás 1.

Í þættinum gerir Nína tilraun til að íslenska mockumentary-heitið og fékk aðstoð frá Braga Valdimar Skúlasyni við þýðinguna. 

„Hann stakk upp á orðunum sveimildarmynd, hannesunarmynd, feikmynd, hálfsannleikamynd eða ...svikmynd, sem er augljóslega besta þýðingin, og bara nokkuð góð, þannig að orðið svikmynd getur verið notað skammlaust um hinar hæðnu mockumentary-kvikmyndir hér eftir,“

Kvikmyndir á borð við This is Spinal Tap voru um árabil flaggberi þessarar kvikmyndategundar, en formið sló síðar í gegn í sjónvarpi og síðasta áratug hefur megnið af vinsælu leiknu sjónvarpsefni vestanhafs verið af þessari tegund.

„Þættirnir The Office, Arrested Developement og Parks and Recreation eru allt dæmi um þessa tegund grínþátta, sem hafa náð feiknavinsældum og gulltryggt forminu sess innan gamanþáttahefðarinnar.“ 

Stór þáttur innan þessarar bylgju gamanþátta er bandaríski þátturinn Modern Family. Þar er sögð saga þriggja nútímalegra fjölskyldna sem allar eru innan sömu stórfjölskyldunnar. Fjölskyldurnar þrjár eru ólíkar að gerð og hafa sín sérkenni, þar er ein fjölskyldan með samkynhneigðu pari, önnur er stjúpfjölskylda og sú þriðja kjarnafjölskylda. Persónugalleríið er stórt, og engin ein persóna er mjög áberandi stærsta aðalpersónan, og skipting skjátímans milli helstu karaktera er jöfn. Eru þeir í stíl leikinna heimildamynda þar sem skáldaðir karakterar ávarpa myndavélina reglulega, ýmist í einrúmi eða með öðrum.

Nína segir vera grósku í svikmyndaforminu, enda sé um að ræða einhverskonar frænda spunaleikhefðarinnar. Formið sé vel tengt við grasrótina, unga leikara og tilraunaleikhús, og spuni sé sömuleiðis algengt stílbragð. 

Fyrir þá sem vilja kynna sér grasrótina betur mælir Nína með þáttunum „2016: Year Friends“, sem eru breskir svikmyndaþættir í sketsa stíl, skrifaðir og leiknir af hópi ungra bandarískra uppistandara. Þættirnir eru gefnir út og sýndir á netinu, áhorfendum að kostnaðarlausu. Hægt er að nálgast þættina á Vimeo.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Raunveruleg platveröld Kim Kardashian

Sjónvarp

Ný gerð af rómantískum gamanþáttum

Sjónvarp

Ris og fall kókaínkonungsins

Sjónvarp

Siðblindur vísindamaður og barnabarnið hans