Gríski sendiherrann kallaður heim frá Vín

26.02.2016 - 02:46
epa05180306 Greek ambassador Chryssoula Aliferi leaves Greek embassy in Vienna, Austria, 25 February 2016. Greece recalled its Vienna ambassador in a protest move over Austria having hosted a conference on the refugees crisis with countries of the Balkan
Gríski sendiherrann í Vín, Chryssoula Aliferi, yfirgefur sendiráðið.  Mynd: EPA
Grikkir hafa kallað sendiherra sinn heim frá Austurríki til að mótmæla hertu landamæraeftirliti Austurríkismanna og því, að hafa ekki verið hafðir með í ráðum á ráðstefnu um málefni flóttafólks, sem boðað var til í Vín í vikunni. Þar funduðu Austurríkismenn með fulltrúum níu Balkan- og Austur-Evrópuríkja, sem flóttafólk ferðast oftast í gegnum á leið sinni frá Grikklandi norður í álfuna, til Þýskalands, Svíþjóðar og fleiri landa.

Í yfirlýsingu frá gríska utanríkisráðuneytinu segir að sendiherrann hafi verið kallaður heim svo viðhalda megi vinsamlegum samskiptum þjóðanna tveggja. Vandamál sem steðji að Evrópusambandinu verði hins vegar ekki leyst með hugsunarhætti og aðgerðum sem eiga rætur í 19. öldinni.

Með því að loka landamærum sínum fyrir stórum hluta þess, líkt og ákveðið var á fundinum í Vín, stuðla stjórnvöld þessara landa að því að Grikkir sitji uppi með tugi þúsunda flóttafólks, sem annars hefði haldið för sinn áfram. 

Vilja ekki verða Líbanon Evrópu

Yannis Mouzalas, ráðherra innflytjendamála í grísku stjórninni, sagði Grikki ekki ætla að sætta sig við að breytast í „Líbanon Evrópu," en um ein milljón sýrlenskra flóttamanna er talin vera í Líbanon um þessar mundir. Mouzalas er í Brussel þar sem ráðherrar frá ESB og Balkanlöndum funda nú um málefni flóttafólks, í aðdraganda samráðsfundar sem halda á með Tyrkjum þann 7. mars næstkomandi. Yfirgnæfandi meirihluti flóttafólks sem kemur til Evrópu tekur fyrst land í Grikklandi, flest eftir stutta sjóferð frá Tyrklandi. 

Grikkir hafa hótað því að beita neitunarvaldi gegn öllum pólitískum ákvörðunum Evrópusambandsins, einkum hvað málefni flóttafólks varðar, ef aðildarríkin fara ekki að taka til sín flóttafólk í samræmi við þá kvóta sem samþykktir voru síðastliðið haust.