Grindavík og Fram styrkja Abel Daihra

15.02.2016 - 02:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Knattspyrnulið Grindavíkur og Fram í Reykjavík hafa bæði gefið svokallaðan sektarsjóð sinn í fjársöfnun ÍBV fyrir markvörð Eyjamanna, Úgandamanninn Abel Daihra. Greint er frá þessu á vefnum fótbolti.net. Abel, sem hefur verið aðalmarkvörður ÍBV um nokkurra ára skeið, greindist með krabbamein í kviðarholi á síðasta ári og gekkst undir aðgerð í Úganda fyrir áramót. Sú aðgerð dugði þó ekki til, því meinið hefur dreift sér og mun Abel gangast undir læknismeðferð hér á landi, sem hefst nú í vikunni.

ÍBV sá til þess að koma Abel hingað til lands og blés til söfnunar til styrktar markmanni sínum. Á föstudag tilkynnti mestaraflokkur karla í Grindavík að liðið hygðist leggja sektarsjóð sinn inn á söfnunarreikning Eyjamanna, en sá sjóður er annars ætlaður til að mæta sektargreiðslum sem aganefnd KSÍ kann að dæma leikmenn til að inna af hendi. Jafnframt skoruðu Grindvíkingar á önnur knattspyrnulið að gera hið sama.

Nú hefur meistarflokkur karla hjá Fram orðið við þeirri áskorun, lagt sinn sektarsjóð í púkkið og skorað á aðra að gera það líka.

Allir geta lagt ÍBV og Abel lið með því að leggja inn á reikning 582-14-602628 kt. 680197-2029, eða með því að hringja í einhvert eftirtalinna símanúmera: 

9071010 – 1000kr 
9071020 – 2000kr 
9071030 – 3000kr 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV