Gríðarmikið berghlaup á Grænlandi - Myndskeið

19.06.2017 - 12:34
Mynd með færslu
 Mynd: Kunuunnguaq Petersen Geisler  -  Skjáskot af Facebook
Berghlaupið á Grænlandi í fyrrinótt olli bæði jarðskjálfta og flóðbylgju sem fylgdi á eftir. Tómas Jóhannesson jarðeðlisfræðingur segir berghlaup nokkuð algeng á Grænlandi og þar velti menn því fyrir sér að sprengja óstöðugt berg sem eftir er í hlíðinni.

Fjögurra er enn saknað eftir flóðbylgju sem gekk á land á vesturströnd Grænlands eftir jarðskjálfta aðfaranótt sunnudags. Fólkið, sem saknað er, var allt í sama húsinu í þorpinu Nuugaatsiaq, þar sem skaðinn var mestur. Nuugaatsiaq var rýmt snemma í gærmorgun.

Tómas Jóhannesson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að mjög mikill massi hafi farið út í sjó en af myndum að dæma er sem hálf fjallshlíðin hafi hlaupið. „Það er svæði sem er 1.100 metrar á breidd og 300 í stefnu hlíðarinnar og þegar hlaupið hefur fallið í sjó fram og valdið flóðbylgjunni og jafnframt hefur þá komið fram þessi skjálfti á jarðskjálftamælum af völdum hlaupsins þannig að það er ekki jarðskjálftinn sem olli flóðbylgjunni heldur olli berghlaupið bæði skjálftanum og bylgjunni,“ segir Tómas.  

Hann segir berghlaup nokkuð algeng á Grænlandi. Flóðbylgjur vegna borgarísjaka sem kollsteypast séu þó algengari heldur en flóð vegna berghlaups. Hann segir nokkra hættu á að það komi enn meira úr hlíðinni. „Menn telja sig sjá einhverjar vísbendingar um að þarna sé óstöðugleiki og það geti fallið annan berghlaup á þessum slóðum. Ég sé á vef grænlensku almannavarnanna að þar eru menn að velta fyrir sér jafnvel að sprengja til að losa þetta í smáum skömmtum sem virðist vera óstöðugt en það eru nú ekki oft gert þannig að ég veit ekki hvað úr því verður en menn sjá einhver ummerki og vilja bíða aðeins átekta og koma fólki af þeim stöðum sem kann að skapast hætta á ef það verða fleiri berghlaup.“

Enn liggja ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um stærð hlaupsins. „Þetta er stórt svæði svona miðað við berghlaup sem falla á Íslandi, hugsanlega ekki jafn stórt og eitt af stærstu hlaupunum sem þarna hafa orðið, reyndar á svipuðum slóðum, sem féll í nóvember árið 2000. Þá fóru níutíu milljón rúmmetrar fram í einu berghlaupi og flóðbylgjan sem af því leiddi skolaðist upp í fimmtíu metra hæð á stóru svæði og skildi eftir sig mikil ummerki en þar var ekki byggð sem betur fer og það varð ekki manntjón af völdum hennar,“ segir Tómas.