„Gríðarlega stór áfangi“

18.05.2017 - 13:32
„Þetta er gríðarlega stór áfangi. Við sem höfum verið að vinna að þessu í mörg ár erum ákaflega stolt og ánægð. Þegar maður starfar í stjórnmálum er mjög sjaldan að það koma svona stór kaflaskil í því sem unnið er að. Þetta er ein af slíkum stundum,“ sagði Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, á Morgunvaktinni um þá viðurkenningu á starfi Vestnorræna ráðsins að fá áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu.

Norðurskautsráðið hefur vaxandi pólitíska þýðingu.  Ríkin sem aðild eiga að ráðinu eru Kanada, Danmörk (fyrir hönd Færeyja og Grænlands), Finnland, Ísland, Noregur og Rússland. Nú fá Færeyingar og Grænlendingar eigin rödd á þessum vettvangi. Unnur Brá segir að í áheyrnaraðildinni felist tækifæri til meiri ahrifa og það sé mikilvægt að Íslendingar leggi Grænlendingum og Færeyingum lið í starfinu framundan.

Á Morgunvaktinni var rætt um störf Alþingis og starfshætti, líka þá ákvörðun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að bjóða til sín Ólafi Ólafssyni. „Við treystum nefndum þingsins til að meta það hvaða gesti þær fá á sinn fund“, segir Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, um þá ákvörðun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að samþykkja ósk Ólafs Ólafssonar um að skýra mál sitt fyrir nefndinni, sem er að fjalla um Búnaðarbankaskýrsluna. Margir hafa undrast nokkuð þessa ákvörðun, að orðið sé við ósk manns úti í bæ að koma fyrir nefndina. Eftir fundinn virtust nefndarmenn flestir sammála um að ekkert nýtt hefði komið fram. „Auðvitað eru menn að reyna að fá fram upplýsingar. Ég tel að það hafi verið helsti tilgangurinn með þessum fundi,“ sagði Unnur Brá. En sér hún fyrir sér að starf þingnefndanna breytist? „Þingnefndirnar hafa eftirlitshlutverk. Þær eru bæði að fjalla um mál sem vísað er til þeirra í þingsal og eins fara þær yfir mál á sínu sviði. Þegar nefndarmenn koma sér saman um að taka fyrir ákveðið mál, þá er það gert. Eða að formaður ákveður að taka fyrir mál af vettvangi dagsins til að fá dýpri upplýsingar.“

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi