Greiddu iðgjaldið í smjöri

08.02.2016 - 11:00
Árið 1885 tóku nokkrar konur í Kelduhverfi sig saman og stofnuðu eitt fyrsta vátryggingafélagið á Íslandi: Kýrábyrgðarfélag Keldhverfinga. Félagið var starfandi í tæp hundrað ár og allan þann tíma var það rekið af konum. Konum sem vissu hversu mikilvæg kýrin var fyrir heimilið.

„Fátæk kona sem missti kúna sína hún hafði ekki mörg úrræði,“ segir María Pálsdóttir, fyrrum bóndakona í Vogum í Kelduhverfi. Hún og Þórarinn Þórarinsson maður hennar þekkja sögu Kýrábyrgðarfélagsins

Hver kona sem vildi tryggja kúna sína lagði til eitt og hálft pund af smjöri. Því var komið í verð og myndaði þannig þann tryggingasjóð sem þurfti til þess að greiða úr bætur.  Með tímanum gátu félagsmenn einnig slegið lán hjá sjóðnum til kýrkaupa.  

Á þessum tíma voru tryggingafélög fátíð og óvíst að konurnar í Kelduhverfi hafi haft einhverja forskrift að því hvernig reka ætti tryggingafélag og lánastofnun. „Þær voru að finna þetta upp. Og kannski í staðinn fyrir það að hafa fyrirmyndina þá hafa þær kannski orðið fyrirmynd annarra þegar fram liðu stundir,“ segir Þórarinn. 

Landinn rifjaði upp sögu þessa merkilega félags. 

Mynd með færslu
Þórgunnur Oddsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Landinn