Greiða hundrað milljarða fyrir mútugreiðslur

19.02.2016 - 05:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rússneska fjarskiptafyrirtækið VimpelCom hefur samið um að greiða háa fjárhæð til þess útkljá dómsmál í Bandaríkjunum og Hollandi um mútugreiðslur í Úsbekistan. VimpelCom var gefið að sök að hafa greitt fjölskyldumeðlimi forseta Úsbekistans háar fjárhæðir fyrir að fá að komast inn á fjarskiptamarkaðinn í landinu.

VimpelCom greiðir samanlagt 835 milljónir Bandaríkjadala vegna málsins, jafnvirði rúmlega 107 milljarða króna. Bandaríska dómsmálaráðuneytið greindi frá þessu í gær. Fyrirtækið var ákært fyrir að greiða skyldmenni Islams Karimovs, forseta landsins, á árunum 2006 til 2012 til þess að fá leyfi og tíðni fyrir farsíma.

Leslie Caldwell, aðstoðar-ríkissaksóknari Bandaríkjanna, segir að sektargreiðslur VimpelCom hefðu geta orðið hærri, en fyrirtækið hafi fengið afslátt fyrir samstarf. Sáttagreiðslurnar skiptast á milli Verðbréfastofnunar Bandaríkjanna, SEC, bandaríska dómsmálaráðuneytisins og embættis ríkissaksóknara í Hollandi.

Dóttir forsetans í stofufangelsi

Að sögn dómsmálaráðuneytisins verða 850 milljónir dala á svissneskum og öðrum evrópskum bankareikningnum, sem eru í eigu fjölskyldumeðlimsins, gerðar upptækar. Innistæðurnar eru mútugreiðslur frá VimpelCom og öðrum fyrirtækjum sem hafa rekstur í Úsbekistan. 

Elsta dóttir forsetans var dæmd í stofufangelsi á meðan rannsókn á spillingu stóð. Hún var áður sendiherra ríkisins hjá Sameinuðu þjóðunum og var jafnvel talað um hana sem eftirmann föður síns í embætti.

VimpelCom er sjötta stærsta fjarskiptafyrirtæki heims og er í eigu milljarðamæringsins Mikhail Fridman.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV