Græfi undan alþjóðlegu kerfi mannréttinda

12.01.2016 - 15:56
Ef ráðist yrði í endurskoðun flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna kenndan við Genf og viðauka við hann við þær aðstæður sem nú ríkja kynni hinu alþjóðlega kerfi mannréttinda að verða stefnt í hættu. Það er mat Margrétar Steinarsdóttur framkvæmdastjóra Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur hefur viðrað þá skoðun að tímabært sé að ræða breytingar á sáttmálanum í ljósi flóttamannavandans í Evrópu. Meðal þess sem hann telur að beri að endurskoða er að fólk sem hefur komið til Tyrklands þar sem ekki ríkir stríð geti farið til Evrópu og óskað hælis þar. Þá vill hann takmarka rétt fjölskyldna flóttafólks til sameiningar. Þetta líst Margréti Steinarsdóttur ekki á og telur hún raunar báðar þessar ástæður fráleitar. Hún bendir að það geti ekki samræmst mannréttindahugmyndum nútímans að fólk hírist árum saman í flóttamannabúðum eins og raunin er í Tyrklandi við mismunun og án möguleika á þátttöku í samfélaginu. Þá bendir hún á að réttur fjölskyldna til sameiningar sé tryggður m.a. annars í Mannréttindasáttmála Evrópu. Sjálf segist hún vilja sjá breytingar á Genfarsáttmálanum um réttindi flóttafólks en þannig að hann verði styrktur en ekki grafið undan honum eins og hugmyndir forsætisráðherra Dana fela í sér.

 

Mynd með færslu
Jón Guðni Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi