Good Morning America snýr aftur til Íslands

05.01.2016 - 17:02
Breiðamerkurjökull. Mynd: Andreas Tille.
Breiðamerkurjökull verður í aðalhlutverki í Good Morning America á morgun.  Mynd: Andreas Tille  -  Wiki Commons
Bandaríski sjónvarpsþátturinn Good Morning America, sem talið er að um fimm milljónir horfi á hverju sinni, verður með beina útsendingu frá Íslandi á morgun. Þetta er í annað sinn á tæpu ári þar sem sjónvarpsþátturinn verður í beinni frá Íslandi - í febrúar í fyrra mætti Ginger Zee, aðalveðurfræðingur ABC-sjónvarpsstöðvarinnar, til að sýna beint frá gosinu í Holuhrauni með dróna.

Á vef þáttarins kemur fram að sjónvarpskonan Amy Robach ætli að fylgjast með því þegar dróna verður flogið inn í jökulsprungu á Breiðamerkurjökli - þetta er kynnt sem einstakur sjónvarpsviðburður.

Robach hefur nýtt heimsóknina til Íslands vel því hún skoðaði einnig tökustaði þar sem nokkrar frægar senur í Hollywood-kvikmyndum hafa verið gerðar - meðal annars úr Star Wars: The Force Awakens, James Bond og sjónvarpsþáttunum Game of Thrones.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV