Göngumanns enn leitað á Fimmvörðuhálsi

08.03.2016 - 17:59
Mynd með færslu
 Mynd: Símon Halldórsson  -  RÚV
Enn er leitað að manni sem hringdi og óskaði hjálpar um miðjan dag og var þá villtur á Fimmvörðuhálsi. Maðurinn gaf lögreglu og neyðarlínu upp gps hnit með staðsetningu sinn en þeim bar ekki saman. Talið var að hann væri norðan við Fimmvörðuskála og léti þar fyrir berast þar til hann yrði sóttur. Maðurinn sem er erlendur ferðamaður hugðist ganga hálsinn en villtist af leið.

 Sími hans var þá að verða rafmagnslaus og ekki hefur náðst samband við hann aftur.  Um tíu manna lið fór af stað á jeppum og vélsleðum til að ná í manninn. Þegar björgunarmenn komu þangað sem fyrstu hnitin vísuðu þeim var manninn ekki að finna.  Nú hefur verið kallað út aukalið með fleiri sleða og snjóbíla bæði frá björgunarsveitum í Árnessýslu og af höfuðborgarsvæðinu.  Ólöf Snæhólm Baldursdóttir hjá Landsbjörg segir allt kapp lagt á að finna mannin sem fyrst. Það snjóar á Fimmvörðuhálsi, skyggni er lítið sem ekkert og færið þungt. 

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV