Göngufólk rann niður 100 metra í Skarðsdal

06.02.2016 - 15:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Björgunarsveitir voru kallaðar út til aðstoðar göngufólki sem hafði slasast í Skarðsdal á Skarðsheiði rétt fyrir klukkan tvö í dag. Tveir úr hópi göngufólksins höfðu fallið og slasast. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út lenti við Landspítalann í Fossvogi skömmu fyrir klukkan 16.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni kemur fram að þyrlan hafi verið komin á staðinn, sem er í 700 metra hæð, skömmu fyrir klukkan þrjú. Þá hafi björgunarsveitir ekki komist á vettvang og samferðafólk hinna slösuðu einir á vettvangi. Á Facebook síðu Lögreglunnar á Vesturlandi kemur fram að fólkið sem slasaðist hafi verið karlmaður á fimmtugsaldri og kona á sjötugsaldri. Talið er að þeim hafi skrikað fótur í hálku í um sex til sjö hundruð metra hæð og runnið niður um 100 metra niður hlíð.  

Í tilkynningu Landhelgisgæslunnar kemur fram að aðstæður á slysstað hafi verið erfiðar en að greiðlega hafi gengið fyrir áhöfn þyrlunnar að búa um fólkið og flytja það um borð í þyrluna. Þyrlan lenti við Landspítalann í Fossvogi rétt fyrir klukkan fjögur. Ekki hafa borist fregnir af líðan fólksins. Göngufólkinu sem var með þeim verður boðið upp á áfallahjálp, segir í færslu lögreglunnar á Facebook.

Fréttin hefur verið uppfærð. 

 

Um tvöleytið í dag barst tilkynning um slys í Skarðsheiði. Þarna hafði hópur fólks verið í göngu þegar tvennt úr hó...

Posted by Lögreglan Vesturlandi on 6. febrúar 2016

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV