Golden Globe í kvöld — Spotlight líkleg

Erlent
 · 
Menningarefni

Golden Globe í kvöld — Spotlight líkleg

Erlent
 · 
Menningarefni
10.01.2016 - 11:14.Freyr Gígja Gunnarsson
Golden Globe, kvikmyndaverðlaun Samtaka erlendra fréttamanna í Hollywood, verða afhent í kvöld. Flestir veðja á að kvikmyndin Spotlight verði fyrir valinu sem kvikmynd ársins – hún segir frá hópi blaðamanna Boston Globe sem afhjúpa hvernig kaþólska kirkjan reyndi að þagga niður barnaníð innan safnaðarins.

Golden Globe-hátíðin markar upphaf verðlaunatímabilsins vestanhafs. Þau gefa góða vísbendingu um hverjir eru líklegir til að hreppa Óskarsverðlaun sem verða veitt í febrúar.  

Breski grínistinn Ricky Gervais snýr aftur sem kynnir á hátíðinni – þetta er í fjórða sinn sem hann stýrir veisluhöldunum. Hann tók sér hlé frá störfum eftir að hafa verið tekinn á teppið fyrir að hæðast um of að kvikmyndastjörnum og frægðarfólki með gamanmáli sínu. 

Denzel Washington fær í kvöld Cecil B. DeMille-verðlaunin fyrir framlag sitt á hvíta tjaldinu. Leikarinn hefur tvívegis hlotið Golden Globe-verðlaunin – fyrst fyrir Glory árið 1990 og svo tíu árum seinna fyrir The Hurricane.

Washington Post, Guardian og Time spá því að kvikmyndin Spotligth verði fyrir valinu sem besta kvikmyndin. Hún hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda og er orðinn fremst í Óskarskapphlaupinu. Blöðin eru sömuleiðis samála um að The Big Short, sem fjallar um fjármálahrunið vestanhafs, hreppi hnossið sem gamanmynd ársins.

Þá virðast flestir hallast að því að Brie Larsson verði valin leikkona ársins fyrir hlutverk sitt í Room – hún leikur konu sem hefur verið haldið í gíslingu í lokuðu herbergi ásamt syni sínum í nokkur ár. Þegar þau sleppa er sonurinn orðinn fimm ára og upplifir þá umheiminn í fyrsta skipti.

Leonardo DiCaprio þykir sigurstranglegur sem leikari ársins fyrir The Revenant. Hugsanlegt er að eyðimerkurgöngu leikarans sé loksins að ljúka – hann hefur tvívegis hlotið Golden Globe en aldrei Óskarsverðlaun þrátt fyrir fimm tilnefningar.

Golden Globe heiðrar líka það sem vel er gert í sjónvarpi – Mr. Robot er líklegur sem besti spennuþátturinn og Transparant sem besti grínþátturinn. Önnur þáttaröðin af Fargo er síðan fremst í flokki sem besta sjónvarpsmyndin í nokkrum þáttum.