Gögn frá Landspítala stemmi ekki við ný gögn

15.02.2016 - 19:10
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Upplýsingar sem Landspítalinn sendi Karólínska háskólanum - og sem úrskurður háskólans um sýknu umdeilds plastbarkaskurðlæknis byggði á - eru ekki samræmi við það sem fram hefur komið undanfarið, meðal annars í heimildaþætti sænska sjónvarpsins. Þetta segir talsmaður Karólínska. Talsmaður Landspítalans segir að allar rannsóknarniðurstöður hafi verið sendar til Karólínska.

Jan Carlstedt-Duke, prófessor við Karólínska, greinir frá því á vef háskólans að myndefni úr heimildarþætti sænska sjónvarpsins gefi aðra mynd af líðan fyrsta plastbarkaþegans en skýrslur og greinar læknis hans, Paolo Macchiarini, gefi til kynna. Íslenskur læknir tók þátt í fyrstu plastbarkaígræðslunni, og var ásamt öðrum íslenskum lækni meðhöfundur að fyrstu vísindagreininni um aðgerðina í læknablaðinu Lancet. Sex af átta plastbarkaþegum Macchiarinis eru látnir og ekkert bendir til að aðgerðin geti virkað.

Nýjar upplýsingar frá Íslandi

Rektor Karólínska háskólans sagði af sér um helgina og sagði nýjar upplýsingar frá Íslandi sýna að Macchiarini hefði greint rangt frá líðan og bata fyrsta sjúklingsins eftir aðgerðina. Hvorki Landspítalinn né Háskóli Íslands hefur sent nýjar upplýsingar til Svíþjóðar. Svo virðist sem efni úr íslenskri heimildarmynd, sem notað var í heimildarþætti sænska sjónvarpsins, hafi varpað nýju ljósi á málið.

Carlstedt-Duke segir í sænskum fjölmiðlum um helgina að þær upplýsingar sem hafi fengist frá íslenskum heilbrigðisyfirvöldum, stemmi ekki við þær upplýsingar sem nú liggi fyrir. Þetta eigi sérstaklega við um líðan og bata fyrsta plastbarkaþegans, Andemariam Beyene, frá því aðgerðin var gerð og þar til greinin birtist í Lancet. 

Niðurstaðan hafi byggt á upplýsingum Landspítala

Niðurstaða innanhússrannsóknar Karólínska í fyrra var að Macchiarini hefði ekki gerst sekur um fúsk eða afglöp í starfi. Í svari við fyrirspurn fréttastofu RÚV segir Carlstedt-Duke að þær upplýsingar sem Landspítalinn sendi Karólínska háskólanum - og sem niðurstaða háskólans byggði á - séu ekki í samræmi við það sem fram hefur komið síðar, meðal annars í heimildarmynd sænska sjónvarpsins. Því sé full ástæða til að rannsaka málið að nýju.

Sýnin voru send til Karólínska

Upplýsingafulltrúi Landspítalans segir í svari til fréttastofu að Landspítalinn hafi óskað eftir skýringum frá Karólínska háskólans um hvaða gagna vísað er til sem nýrra í málinu. Í svari Karólínska til spítalans var meðal annars vísað til myndbandsbúts sem sýndur var í heimildarþætti sænska sjónvarpsins af berkjuspeglun á sjúklingi sem var framkvæmd hér á landi um tveimur mánuðum eftir barkaígræðsluna. Landspítalinn segir umrætt myndband tekið upp í tengslum við gerð heimildarmyndar um stofnfrumur en framleiðsla myndarinnar hafi ekki verið á vegum Landspítala heldur sjálfstæðra aðila.

Myndband af spegluninni var því ekki hluti af sjúkrarskrá sjúklings í málinu en í umræddri aðgerð voru tekin sýni eftir fyrirmælum Karólínska og send til þeirra til greiningar.

Í svari við fyrirspurnum fréttastofu RÚV frá Landspítalanum og Háskóla Íslands segir að ekki standi til að svo komnu máli að hefja eigin rannsókn á málinu hér heima. Báðar stofnanir taki þátt og aðstoði við rannsókn Karólínska ytra.

Svar Landspítalans:

Landspítali óskaði eftir skýringum frá Karolínska Institutet til hvaða gagna vísað er til sem nýrra í málinu.

Í erindi sem barst frá KI síðdegis er m.a. vísað til myndbandsbúts sem sýndur var í heimildarþættinum Experimenten af berkjuspeglun á sjúklingi sem var framkvæmd hér á landi um tveimur mánuðum eftir barkaígræðsluna. Umrætt myndband var tekið upp í tengslum við gerð heimildarmyndar um stofnfrumur en framleiðsla myndarinnar var ekki á vegum Landspítala heldur sjálfstæðra aðila. Myndband af spegluninni var því ekki hluti af sjúkrarskrá sjúklings í málinu en í umræddri aðgerð voru tekin sýni eftir fyrirmælum KI og send til þeirra til greiningar.

Í erindi KI er sömuleiðis óskað eftir frekari aðstoð Landspítala við rannsókn málsins. Landspítali er og mun áfram vera í samstarfi við rannsóknaraðila í Svíþjóð, enda umhugað um að rannsókn leiði í ljós hið sanna í málinu.“