Góður sigur Íslands gegn Svíþjóð

19.06.2017 - 22:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ísland vann góðan 61-58 sigur á Svíþjóð í körfubolta nú í kvöld. U-20 ára lið landanna mættust í Laugardalshöllinni í kvöld en um er að ræða fjögurra þjóða æfingamót fyrir Evrópumótið sem fer fram síðar í sumar.

Finnland, Svíþjóð og Ísrael taka þátt í mótinu auk Íslands og verður leikið næstu þrjá daga. Ísland og Svíþjóð mættust í öðrum leik dagsins en fyrr i dag mættust Ísrael og Finnland þar sem Finnar unnu stórsigur. Lokatölur 86-68 Finnlandi í vil.

Ísland mætir Ísrael annað kvöld og Finnlandi í lokaleiknum á miðvikudagskvöld.

Frábær endurkoma hjá Íslandi í kvöld

Svíar leiddu með tveimur stigum eftir fyrsta leikhluta, 18-16, en Ísland skoraði einungis sjö stig í 2. leikhluta gegn 17 stigum Svía og staðan í hálfleik 35-23 fyrir Svíþjóð.

Bæði lið skoruðu 15 stig í þriðja leikhluta en frábær spilamennska Íslands í fjórða leikhluta skilaði að lokum þriggja stiga sigri, 61-58.

Stigahæstur í íslenska liðinu var Breki Gylfason með 13 stig, þar á eftir komu þeir Kristinn Pálsson og Þórir Guðmundur Þorbjarnarson með 9 stig hvor. 

Þjálfari liðsins er Finnur Stefánsson og aðstoðarþjálfarar þeir Einar Árni og Baldvin Þór.

Ísland mætir Ísrael annað kvöld og Finnlandi í lokaleiknum á miðvikudagskvöld.

Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður