Glódís:„Sýnir hvað hann hefur mikla trú á mér“

16.07.2017 - 17:40
Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðskona í fótbolta, gekk í gær til liðs við sænska úrvalsdeildarliðið Rosengård frá Eskilstuna sem spilar í sömu deild. Hún skrifaði undir í síðustu viku en samningurinn tók gildi í gær sem þýddi að Glódís getur hætt að hugsa um vistaskiptin og einbeitt sér að leiknum gekk Frökkum á EM á þriðjudag.

Rosengård er stórlið í sænska boltanum og hefur orðið Svíþjóðarmeistari fimm sinnum á síðustu sex árum. Glódís hefur spilað með Eskilstuna frá 2015 en þar á undan lék hún með Stjörnunni. Fyrirliði landsliðsins, Sara Björk Gunnarsdóttir, lék lengi með Rosengård og Glódís gat því ráðfært sig við hana. 

„Við áttum smá spjall og hún sagði mér sínar sögur og hjálpaði mér að gefa mér ráð,“ segir Glódís. 

Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari, sagðist í morgun ánægður fyrir hönd Glódísar en sagði hana hafa fulla burði til að spila fyrir enn stærra lið eins og Lyon eða Barcelona

„Það er bara ótrúlega gaman og sýnir hvað hann hefur mikla trú á mér og það náttúrulega bara styrkir mig og gefur mér ennþá meiri trú á sjálfri mér,“ segir Glódís.

Viðtal við Glódísi má finna í spilaranum að ofan.  

 

 

Mynd með færslu
Edda Sif Pálsdóttir