Getur ekki sinnt hlutverki þjóðarsjúkrahúss

26.02.2016 - 16:07
Mynd með færslu
Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans tók fyrstu skóflustunguna að jáeindaskannahúsinu á dögunum.  Mynd: RÚV
Síðustu tveir mánuðir hafa verið óvenjuþungir á Landspítalanum segir Páll Matthíasson, forstjóri spítalans í föstudagspistli sínum. Hann segir þar að rúmanýtingin hafi farið vel yfir 100% en til að spítalinn geti sinnt sínu hlutverki sem þjóðarsjúkrahús og brugðist við alvarlegum veikindum og slysum sé viðmiðið að nýtingin fari ekki yfir 85%.

Hið mikla álag sem verið hefur á spítalanum undanfarna mánuði hafi takmarkað getu hans til að sinna sínum verkefnum. Því hafi verið lögð þung áhersla á að þeir sem ekki þurfi á þjónustu spítalans að halda hafi möguleika á að komast heim eða annað þar sem viðeigandi þjónusta er veitt. Páll telur að daglegir stöðufundir stjórnenda í Fossvogi þar sem farið er yfir ástandið og leitað lausna hafi haft áhrif á það hversu vel hafi þó gengið að leysa úr hinni erfiðu stöðu sem spítalinn hefur verið í. 

Til framtíðar segir Páll í pistli sínum að finna verði lausn utan spítalans. Þar skipti efling heilsugæslu og uppbygging þjónustu við aldraða miklu máli. Því fagnar Páll því að uppbygging heilsugæslunnar sé á dagskrá og því að heilbrigðisráðherra hafi lagt fram tillögur þar að lútandi í vikunni þó að líta megi mismunandi augum á útfærsluna.