„Getum við átt von á þessu trekk í trekk?“

26.02.2016 - 15:51
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason  -  RÚV
Skagfirðingar eru ósáttir við ótryggt rafmagn og segja að við það verði ekki lengur unað. Byggðaráð vill fund með fulltrúum RARIK, Landsnets, ráðherra og þingmönnum kjördæmisins auk stærstu orkukaupenda í sveitarfélaginu.

Rafmagnslaust varð á Sauðárkróki og í nágrenni í sex tíma á þriðjudag með þeim afleiðingum að starfsemi fyrirtækja féll niður og nokkuð tjón hlaust af. Á fundi byggðaráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar í gær var bókað að stórtjón hefði orðið af völdum rafmagnsleysis síðasta eitt og hálft árið og hættuástand skapast. Lýst var þungum áhyggjum af því sem væri óviðunandi ástand rafmagnsmála í Skagafirði um árabil.

Byggðaráð krafðist tafarlausra úrbóta og ákvað að fara fram á fund með fulltrúum Rarik, Landsnets, ráðherra og þingmönnum kjördæmisins auk fulltrúa frá stærstu orkukaupendum í sveitarfélaginu. Slíkur fundur hefur ekki verið tímasettur en Sigríður Svavarsdóttir, varaformaður byggðaráðs, gekk í morgun á fund fulltrúa Rariks. Þar voru málin rædd og ákveðið að skoða áfram hvaða möguleikar væru í stöðunni.

„Ástandið er náttúrulega bara grafalvarlegt,“ segir Sigríður. „Við vitum ekki: getum við átt von á þessu trekk í trekk? Nú er þetta í annað skipti á átján mánuðum sem þetta kemur fyrir og við getum ekki búið við þetta óöryggi. Stórfyrirtæki sem eiga mikilla hagsmuna að gæta, þetta er ekki nægilegt öryggi fyrir þau.“