Geta krafið flugmenn um sjö milljónir

28.06.2017 - 15:41
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Icelandair krefst þess að flugmenn sem hefja þjálfun hjá félaginu undirgangist skuldbindingu þess efnis að starfa ekki fyrir annað flugfélag í þrjú ár hið minnsta. Brjóti þeir gegn samkomulaginu þurfa þeir að greiða félaginu rúmlega sjö milljónir.

Þetta kemur fram í nýútkomnu fréttabréfi félags íslenskra atvinnuflugmanna. Örnólfur Jónsson, formaður félagsins, segir samninginn einhliða, því flugmennirnir fái ekki samhliða boð um að starfa hjá flugfélaginu þessi þrjú ár.

„Við höfum mótmælt þessu harðlega. Við teljum þetta ekki standast kjarasamninginn, fyrir utan það að þessu fylgir ekki boð um samfellda vinnu þannig að við teljum þetta einfaldlega ekki ganga upp. Það er engin skuldbinding af hálfu félagsins að halda mönnum í vinnu samfellt þannig að þetta er engan veginn að ganga upp.“

Hann segir flugmenn þegar hafa skrifað undir samkomulagið. Örnólfur segir þetta eiga ekki við um þá sem hafi verið sagt upp störfum hjá félaginu nýlega heldur aðeins nýja flugmenn sem nú hefja þjálfun.

„Félagið er núna í því að ráða fólk fyrir 2018 og allir sem hefja þjálfun í þeim hópi eru látnir skrifa undir þessa skuldaviðurkenningu.“

Og sú þjálfun er hafin eða hvað?

„Sú þjálfun er hafin já.“

Hann segir félagið telja samkomulagið ekki standast kjarasamning.

„Við höfum krafist þess að þetta verði dregið til baka. Ef ekki verður fallist á það munum við væntanlega fara með þetta fyrir félagsdóm í ljósi þess að við teljum þetta ekki standast kjarasamning.“
 
Örnólfur segir félagið ekki hafa fengið viðbrögð frá Icelandair vegna gagnrýni sinnar önnur en þau að félagið standi við áform sín. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir þetta samkomulag sem báðir aðilar skrifi undir í sátt. Ástæðan sé meðal annars mikil fjölgun erlendra flugmanna hjá flugfélaginu sem gjarnan starfi tímabundið hjá Icelanair.