Gestkvæmt hjá konunni á Ísafirði

15.02.2016 - 17:33
Mynd með færslu
 Mynd: Landinn  -  RÚV
Gestkvæmt hefur verið hjá konu á níræðisaldri sem flutt var á sjúkrahús á Ísafirði fjarri fjölskyldu sinni. Dóttir konunnar segir það koma á óvart hvað ókunnugt fólk hefur sýnt henni mikinn samhug.

Konan var flutt á sjúkrahús í Reykjavík vegna fótbrots. Síðar var hún flutt á Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði. Þangað er lengra fyrir ættingjana á Patreksfirði að heimsækja hana heldur en til Reykjavíkur, þar sem fara þarf eystri leiðina um Vestfirði að vetri. Að auki á konan ættingja á höfuðborgarsvæðinu. Til stóð að flytja hana á Patreksfjörð í dag en ekki var flogið vegna veðurs.

Birna Mjöll Atladóttir, dóttir konunnar, segir jákvætt að þjónustan sé persónulegri á Ísafirði en í Reykjavík. Það hefur komið henni á óvart hversu margir hafa heimsótt móður hennar. Þegar eina konan á Ísafirði sem er skyld fjölskyldunni kom í heimsókn hafði fólk þegar komið í heimsókn færandi blóm og mandarínur. „Síðan vitum við að það hefur fólk heimsótt hana, meira að segja frá Botni í Súgandafirði. Það er yndislegt að hún er í góðum höndum og fær heimsóknir þó hún sé langt að heiman.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV