Gerir athugasemdir við Sparisjóð S-Þingeyinga

12.02.2016 - 15:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjármálaeftirlitið hefur gert athugasemdir við útlánastarfsemi Sparisjóð Suður-Þingeyinga, í kjölfar athugunar sem hófst í janúar á síðasta ári. Stjórn sjóðsins er sögð hafa vanrækt eftirlitshlutverk sitt en sjálf segir stjórnin að sparisjóðurinn hafi staðist þær kröfur sem til starfseminnar eru gerðar.

 

Heildarskuldbindingar sjóðsins, sem nema rúmlega einum og hálfum milljarði króna, voru skoðaðar og sérstök áhersla var lögð á stórar áhættuskuldbindingar sjóðsins. Einnig var farið ítarlega yfir allar lánveitingar umfram 20 milljónir króna og fleira. 

Verklag ekki samkvæmt lögum

Athugsemdir FME snúa að því að skjalfest verklag sjóðsins varðandi útlánin hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga og reglna er varða eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti fjármálafyrirtækja. Viðmið hafi skort í reglum sjóðsins og eftirfylgni hafi ekki verið í samræmi við reglurnar í þó nokkrum tilvikum. Þá var gerð athugasemd við mat á afskriftarþörf útlána, en FME telur að auka þurfi framlög í sérgreindan afskriftarreikning útlána.

Sinntu ekki eftirliti

Að mati FME hefur stjórn sparisjóðsins ekki sinnt eftirlitshlutverki sínu, eða fjallað með reglubundnum hætti um vanskil og áhættustýringu sjóðsins til samræmis við ákvæði í starfsreglum stjórnarinnar. Þetta hafi komið í ljós þegar fundargerðir voru yfirfarnar. Auk þess hafi verið misræmi á milli upplýsinga sem sparisjóðurinn afhenti FME í tengslum við athugunina og upplýsinga úr reglulegri skýrslugjöf til FME um stórar áhættuskuldbindingar.

FME gerir þá kröfu að sparisjóðurinn geri viðeigandi úrbætur vegna athugasemdanna. Innri endurskoðandi framkvæmi síðan úttekt á þeim og skili FME greinargerð í apríl næstkomandi.

Harma áfellisdóm

Í tilkynningu sem sparisjóðurinn sendi frá sér í dag, segir að stjórn sjóðsins harmi þann áfellisdóm sem FME hafi fellt yfir sparisjóðnum. Leitast hafi við að vinna með FME að því að uppfyllta sífellt hertari reglur og kröfur sem gerðar séu til fjármálafyrirtækja og muni halda áfram á sömu braut. Stjórnin gerir ýmsar athugasemdir við skýrslu FME.

Um verklag við útlán, segir stjórnin að sjóðurinn leitist ávallt við að vinna í samræmi við lög og reglur. Fyrirmæli FME um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti séu matskennd og ekki mælanleg. FME hafi fengið sent afrit af reglum sparisjóðsins og engar athugasemdir hafi verið gerðar við þær hingað til.

Áhættustýring standist kröfur

Í tilkynningunni segir einnig að þrátt fyrir athugasemd um eftirlit stjórnar með áhættustýringu og vanskilum, komi það fram í endanlegri skýrslu FME að áhættustýring sparisjóðsins standist þær kröfur sem til starfseminnar eru gerðar, að teknu tilliti til umfangs og eðlis hennar.

Sparisjóðurinn hyggst þó í öllum tilvikum verða við tilmælum FME, þó hann telji að ákveðnum tilfellum sé gengið lengra en reglur gera ráð fyrir.

Sjá má bæði niðurstöðu athugunar FME og tilkynningu sparisjóðsins í viðhengi með fréttinni.