Gerðu aðsúg að flóttafólki - myndband

19.02.2016 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd: Youtube  -  skjáskot
Hópur um 100 hægriöfgamanna gerði aðsúg að flóttafólki í smábænum Clausnitz í Suðaustur-Þýskalandi í gærkvöld. Fólkið var á leið á gistiheimili fyrir flóttafólk, með rútu. Mótmælendur tepptu leið hennar um á aðra klukkustund.

Fjölmiðlamaðurinn Jan Böhmermann birtir myndband af atvikinu á vefsíðunni Youtube. 

 

Í frétt Spiegel af málinu kemur fram að rúta sem flóttafólkið var í, hafi komið að gistiheimilinu um klukkan 19:20 í gærkvöld. Fólkið gat þó ekki farið út fyrr en um klukkan níu. Á myndbandi af atburðinum sjást mótmælendur hrópa „Raus mit euch“ eða „Burt með ykkur“ að flóttafólkinu sem ýmist bregst við með reiði eða gráti. 

Mótmælendur hrópuðu einnig „Wir sind das Volk!“ eða „Við erum þjóðin!“. Þetta slagorð varð til í Austur-Þýskalandi og notað gegn stjórn Kommúnistaflokksins þar. Síðustu ár hafa Pegida-samtökin tekið slagorðið upp. Þau berjast gegn fjölgun múslíma í Evrópu. Fjallað var um Pegida-samtökin í Víðsjá í byrjun síðasta árs. 

Að sögn Spiegel rannsakar lögregla hvort mótmælendur hafi brotið gegn lögum um fjöldasamkomur. Ekki er ljóst hverjir skipulögðu mótmælin.

Clausnitz er syðst í Saxlandi, nærri landamærum Þýskalands að Tékklandi.