Gera ekki sömu mistök og Gaddafi og Hussein

09.01.2016 - 03:43
epaselect epa05092220 A South Korean sentry post (front) and North Koren sentry post (above) look at each other running across the inter-Korean border in the border city of Paju, in Gyeonggi-do, South Korea, 08 January 2016. Highly sensitive propaganda
 Mynd: EPA
Stjórnvöld í Norður-Kóreu vara nágranna sína í suðri við því að ef þeir haldi áfram að varpa áróðri úr risa-hátölurum yfir landamærin séu þeir að biðja um stríð. Þau segja kjarnorkutilraun sína stórkostlegan viðburð sem sýni að ríkið sé nógu öflugt til þess að verjast öllum óvinaþjóðum.

Stjórnvöld í Suður-Kóreu hófu á ný að senda áróður úr stórum hátölurum yfir landamærin í fyrrinótt til þess að svara fyrir kjarnavopnatilraun Norður-Kóreumanna frá því á miðvikudag. Nú segja norður-kóresk stjórnvöld að með því séu ríkin komin á barm styrjaldar.

Stjórnvöld í norðri segja þjóðina stolta af sprengjunni sem sé mikið réttlætismál. Á meðan þjóðinni stafi ógn af stórveldum á borð við Bandaríkin hafi hún fullan rétt á því að verja sig með öllum tiltækum ráðum. Í fréttatilkynningu sem lesin var í ríkisfjölmiðli Norður-Kóreu segir að sagan sýni að sterk kjarnorkuvörn sé öflugasta vörnin gegn árásargjörnum óvinum.

Í tilkynningunni sagði jafnframt að örlög Saddam Hussein í Írak og Moammar Gaddafi í Líbíu sýni hvað gerist ef ríki hætti kjarnorkuáformum sínum. Báðir hafi þeir gerst sekir um þau mistök að láta undan þrýstingi vestrænna ríkja leiddum af Bandaríkjunum.

Mikil hátíðahöld voru haldin á Kim Il-Sung torgi í höfuðborginni Pyongyang í gær til þess að fagna tilrauninni.

Myndband var sent út af norður-kóreskum stjórnvöldum í nótt sem sýnir kafbát skjóta eldflaug. Yfirvöld í Suður-Kóreu telja myndbandið vera safn mynda frá tilraunum í desember síðastliðnum og frá árinu 2014.