Geitungur olli slysi á vinnustað

11.02.2016 - 12:08
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
ISS á Íslandi var í gær dæmt til að greiða konu miskabætur vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir á vinnustað sínum, á Grundartanga, í maí 2012. Slysið varð þegar geitungur kom fljúgandi að konunni, henni brá og hún snéri sér snöggt undan og féll við það um poka með þvotti sem var í gangveginum. Hlaut hún áverka á báðum olnbogum sem leiddi til 15% varanlegrar örorku. Konan var flokkstjóri við ræstingar.

Ekki deilt um orsök 

Ekki var deilt um orsök þess að stefnandi snéri sér snöggt við heldur pokann sem konan féll um. Stefnandinn, konan, telur að pokinn hafi fallið úr pokahrúgu sem hafi verið reist við gönguleið starfsmanna. Tjón konunnar megi því rekja til verkferla starfsmanna að stafla pokunum, sem hafi falið í sér augljósa hættu. Þannig hafi stöðlum og fyrirmælum Vinnueftirlits ríksins ekki verið fylgt. Stöðlum sem varða aðbúnað til útgöngu sem eigi ávallt að vera greiðfærir og hindrunarlausir. Stefndi taldi hins vegar að pokinn hefði legið á gólfi byggingarinnar þegar konan kom þangað inn til að reykja og því hefði hún sjálf, sem flokkstjóri á staðnum, átt að vera búin að fjarlægja hann áður en hún féll um hann. 

Hefði átt að tilkynna beint til Vinnueftirlitsins

Þrátt fyrir að stefnandi hafi látið vita af slysinu á leið sinni á slysadeildina var málið ekki tilkynnt Vinnueftirlitinu. Því fór engin rannsókn fram af hálfu Vinnueftirlitsins um orsök slyssins eða aðstæður á slysstað. Slík rannsókn hefði getað varpað skýrara ljósi á orsök og aðstæður á slysstað. Því er stefndi látinn bera hallann af skorti á sönnunum og atriðum sem hefðu getað haft áhrif á sakarmat í málinu. Hins vegar var skýrsla um slysið unnin eftir að ljóst var hversu alvarlegt slysið var, konan var frá vinnu í marga mánuði, og í henni kemur fram að gerðar voru úrbætur á staðnum eftir slysið.  

Öryggi á vinnustað ekki tryggt

Í dómsorðum segir að stefndi hafi ekki brugðist við í tæka tíð til að tryggja öryggi á vinnustað sínum og að sú vanræksla hafi valdið umræddu slysi. Því beri stefndi ábyrgð á tjóni konunnar vegna slyssins en vegna þess að konan var flokkstjóri og þekkti svæðið vel hefði hún getað sýnt meiri aðgæslu með vitneskju um frágang pokans með þvottinum. Því var konan látin bera þriðjung af tjóni sínu sjálf. ISS Íslandi ber að greiða eina milljón króna í málskostnað.

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV