Garga og gretta sig brúðhjónum til heiðurs

26.01.2016 - 13:36
Myndband af svokallaðri haka í nýsjálensku brúðkaupi hefur vakið mikla athygli undanfarana daga. Haka á sér langa sögu í menningu Maóra á Nýja-Sjálandi og er í grunninn gamalt stríðsöskur, dans og í raun ógnun en einnig virðingarvottur. Þetta menningarfyrirbæri þar syðra var rifjað upp í Víðsjá á Rás 1.

Hjónin Benjamin og Aaliyah gengu í það heilaga á dögunum. Það er svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir þau auðvitað og þeirra nánustu. Benjamin var í svörtum jakkafötum, hvítri skyrtu og með mjótt svart bindi um hálsinn. Aaliyah í hvítum kjól með blómakrans um dökkt slegið hárið. Brúðkaupið fór fram nokkuð langt í burtu, 15. þessa mánaðar, í borginni Hamilton á Norðureyju Nýja-Sjálands. Um fjölda gesta í brúðkaupinu veit ég ekki, en eitt er víst að þeim hefur fjölgað snarlega undanfarna daga.

Gríðarvinsælt myndband

Myndband úr brúðkaupinum hefur nefnilega slegið rækilega í gegn. Þar stíga nokkrir af vinum brúðhjónanna svokallaða Haka (orðið er eins í eintöku og fleirtölu) – hátíðardans eða atriði þeim til heiðurs. Um allan heim hefur fólk hrifist að myndbandinu og ekki síst tilfinningunum sem hópurinn sýnir og viðbrögðum brúðhjónanna sem horfa á hópinn. Benjamin stendur hnarreistur á meðan en Aaliyah bregst við með því að gráta gleðitárum. Í lok myndbandsins taka þau síðan þátt í söngnum og hreyfingunum og að dansinum loknum gengur Benjamin milli vina sina og heilsar þeim að Maóra sið með svokölluðu „hongi“ þegar hann leggur enni sitt við enni nokkura þeirra sem hafa sýnt honum og konu hans virðingu með þessum hætti. Hann leggur nefið upp að nefi gesta sinna og þeir lygna aftur augum.

Frá því að því myndbandið kom á vefinn 20. janúar síðastliðinn hafa tæplega 40 milljón manns horft á myndbandið á fésbók.

Löng saga

Haka á sér langa sögu í menningu Maóra á Nýja-Sjálandi. Haka er í grunninn gamalt stríðsöskur, dans og í raun ógnun en einnig virðingarvottur og þá einkum á síðari árum. Haka var áður dönsuð og sungin á undan orrustu og þá skipti miklu máli að stríðsmennirnir væru samtaka, annað þótti ekki boða neitt gott. Upphaflega var stríðs-haka til þess ætluð að sýna styrk og mátt hópsins og hræða líftóruna úr andstæðingnum með skipulegum hávaða og látum, en í dag geta ástæður hennar verið margvíslegir. Haka er dönsuð við brúðkaup og jarðafarir, þær kenndar í skólum þar sem haka hópar eru settir saman og sýndar erlendum tignargestum og við hátíðleg tækifæri, svo eitthvað sé nefnt. Og síðast en ekki síst þá hafa íþróttaliðin nýsjálensku tekið Haka upp á sína arma. Það gerðist fyrst í kringum aldamótin 1900 og t.d. hefur nýsjálenska rúgbí-liðið sýnt Haka á undan leikjum sínum allt frá árinu 1905.

The All Blacks

Nýsjálenska rúgbí-liðið, The All Blacks, tók auðvitað Haka á undan úrslitaleiknum á móti Ástralíu á síðasta heimsmeistaramóti. Þeir unnu leikinn á móti nágrönnum sínum sem stóðu brúnaþungir og horfðu á Haka, fyrir leikinn.

Til eru margar tegundir af Haka og ekki skal undra að yfirleitt eru karlmenn í aðalhlutverki þó að konur taki stundum þátt, eins og t.d. í brúðkaupinu hjá Armstrong hjónunum þar sem nokkrar konur slást í hópinn. En það eru líka til Haka tegundir sem leiddar eru af konum. Ka Panapana er dæmi þar um.

Líkamstjáning

Í grunninn er þetta alltaf eitthvað á þessa leið: það er gargað og menn gretta sig, ulla jafnvel og sýna hvítuna í augunum, stara á áhorfandann/andstæðinginn og ranghvolfa jafnvel augunum. Það er stappað og menn stunda búkslátt ýmis konar. Stjórnandinn gengur oft á milli manna og jafnvel veifar spjóti eða priki ef það er við hendina. Ýmis hljóð sleppa úr börkum önnur en þau sem eru kyrjuð og virðist manni sem það sé frelsið í forminu. Þannig fær einstaklingurinn útrás innan hópsins. Allur líkaminn er undir: höfuðhreyfingar, hendur slá á búk og enkum bringu og upphandleggi, fætur stappa, röddin, augun, tennur og tunga. Undir liggur hugrekkið, sigurvissan, jafnvel reiðin en oftar en ekki virðing líka. Fyrir þeim sem Hakan er til heiðurs.

Algengasta tengund Haka og svo þekktasta er Ka Mate en í brúðkaupinu hjá Armstrong hjónunum sem nú fer eins og stormur um internetið var stigin Tika Tonu, sem brúðurinn Aaliyah lýsir í viðtali við vefmiðilinn today.com sem almennri tengund sem oft er framinn úti undir berum himni og er kennd í framhaldsskólum. Ungu hjónin hittust fyrir ári síðan á ráðstefnu mormónakirkna þar suður frá. Þó Aaliyah sé dekkri á hörund en Benjamin segir hún þó mann sinn vera með meira af Maórablóði í æðum sér en hún sjálf. Hún er meiri blanda, líka ættuð frá Samóa-eyjum og Evrópu á meðan Benjamin er með Maora tengingar í báðar áttir. Og auðvitað eru þau hissa á viðbrögðunum, ánægð og glöð með að menning heimalandsins skuli ná svo víða og það með þessu myndbandi úr brúðkaupinu þeirra.

----

 

Mynd með færslu
Guðni Tómasson
dagskrárgerðarmaður
Víðsjá
Þessi þáttur er í hlaðvarpi