Gangagerð hafin á Húsavík

17.01.2016 - 19:23
Framkvæmdir fara vel af stað við Húsavíkurhöfn. Þar er unnið hörðum höndum að því að stækka legukanta og dýpka fyrir stærri flutningaskip. Húsvíkingar verða líklega lítið varir við þetta, en taka þó væntanlega eftir því þegar sprengingar hefjast við Húsavíkurhöfða.

Grafan á dýpkunarpramma verktakafyrirtækisins Björgunar fær litla hvíld þessa dagana, þar sem hún er nýtt til dýpkunar og undirbúnings fyrir byggingu viðlegukants í Húsavíkurhöfn. Lengja þarf kantinn svo að stærri flutningaskip geti lagst þar að bryggju en nú er mögulegt. Framkvæmdir fara vel af stað.

„Stóra myndin er öll á áætlun, sumir liðir eru aðeins á undan og aðrir aðeins á eftir. Stóru hlutirnir eru á réttum stað, við munum einmitt eiga fund núna síðar í janúar með öllum helstu hagsmunaaðilum þar sem að menn munu svona taka stöðuna, bera saman tímalínur og taka góða stöðutöku á verkefninu", segir Snæbjörn Sigurðsson, verkefnastjóri Norðurþings.

Framkvæmdir við jarðgöngin, sem eiga að liggja frá Bakka að höfninni, eru einnig hafnar af fullum krafti og það styttist í fyrstu sprengingu. Húsvíkingar verða lítið varir við framkvæmdirnar, þar sem þær eru lítt sýnilegar. Það breytist þó fljótlega.

„Það má gera ráð fyrir því, svona alveg í byrjun þegar að menn eru að sprengja sig inn í göngin að þá gætu menn orðið eitthvað varir við þetta", segir Snæbjörn.

Viðvörun verður send út áður og segir Snæbjörn að allir verði látnir vita með góðum fyrirvara áður en sprengingar hefjast.

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV