Gamla stálbrúin þolir ekki slökkvibíl

08.03.2016 - 15:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson  -  Gamla brúin yfir Jökulsá á d
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson  -  Gamla brúin yfir Jökulsá á d
Hvorki ruslabíll né slökkvibíll kemst til bænda í Klausturseli á Jökuldal. Hvað þá fjárbíll að sækja fé á haustin. Ástæðan er meira en hundrað ára gömul stálbrú sem þolir enga þungaflutninga.

Kröflulína 3 kallar á sterkari brú

Ljóst er að brúin mun ekki duga þegar framkvæmdir hefjast við Kröflulínu 3. Mjög erfitt yrði með alla aðdrætti nema sterkari brú verði byggð yfir Jökulsá á dal. Þannig mætti nýta leiðina inn Jökuldal til að koma tækjum upp á Fljótdalsheiði. Bændum í Klausturseli finnst löngu tímabært að fá nothæfa brú.

„Þessi bær þarf að tengjast með nútíma samgöngum eins og aðrir bæir á Íslandi. Núna er möguleiki á því í tengslum við þessa framkvæmd,“ segir Aðalsteinn Jónsson, ferðaþjónustbóndi á Jökuldal. Á meðan hann bjó með kindur í Klausturseli þurfti hann að selflytja fé yfir gömlu brúna til að koma því á fjárbíl. Nú er sonur hans tekinn við búinu að stórum hluta.

Þyrfti að legga slöngur langar leiðir

Baldur Pálsson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörunum á Austurlandi, staðfestir að dælubíll myndi ekki komst yfir gömlu brúna. Þess í stað þyrfti að leggja slöngur langar leiðir sem er mjög óæskilegt í slökkvistarfi. „Þá yrðum við að hafa allt hinum megin við ána og leggja slöngur með miklu þrýstingsfalli á leiðinni en þar er mikil hækkun.“ Hann segir að slökkviliðið eigi slöngur sem nái að bæði íbúðarhúsinu og fjárhúsunum í Klausturseli en þá væri ekki hægt að tvískipta slöngunni og sprauta á tveimur stöðum í einu.

Hann segist hafa beitt sér fyrir því að ný brú verði smíðuð yfir Jökulsá á dal við Klaustursel. Allsstaðar sé reynt að tryggja að slökkvibíll komist að; meira að segja við sumarbústaði. „Þetta er allt á nippinu og það er mjög sérstakt að geta ekki komið að slökkvibíl. Maður vonar bara að það kvikni aldrei í Klausturseli,“ segir Baldur Pálsson, slökkviliðstjóri hjá Brunavörnum á Austurlandi. 

Vilja halda í þá gömlu

Landsnet hyggst byrja að bjóða út verkþætti við Kröflulínu 3 um næstu áramót og rætt hefur verið að láta gömlu brúna víkja fyrir nýrri brú á sama stað. Þó gamla brúin sé miklum annmörkum háð óttast bændur á Jökuldal um afdrif gömlu brúarinnar. Hún þykir merkileg enda byggð árið 1908 úr saman hnoðuðum stálbitum. Aðalsteinn segir mikilvægt að gamla brúin fari hvergi. „Þetta eru menningarminjar og búið að gera hana upp sem slíka. Hún þolir ekki þessa umferð sem er á henni í dag því menn eru alltaf að reka sig utan í hana.“

Nú brú líklega byggð rétt ofar

Sveinn Sveinsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Austurlandi, segir að Vegagerðin vilji ekki hrófla við gömlu brúnni enda hafi hún lagt talsvert í að gera hana upp og bæta umhverfi hennar á hundrað ára afmæli brúarinnar. Vegagerðin hafi fengið sérstaka viðurkenningu fyrir varðveislu gamalla brúa. Landsnet og Vegagerðin ræði nú að byggð verði ný brú skammt innan við þá gömlu. 

Á myndunum hér að ofan má sjá selflutning á sláturfé yfir gömlu stálbrúna á Jökuldal. 

 

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV