Gagnrýnir sóun Bandaríkjastjórnar í Afganistan

21.01.2016 - 05:11
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Bandaríkjastjórn sólundaði milljónum dala í endurreisnaverkefni í Afganistan að sögn etirlitsmanns. Alls fóru 800 milljónir dala úr ríkissjóði Bandaríkjanna til uppbyggingar í Afganistan á fimm ára tímabili.

John Sopko, sem stýrði eftirliti með endurreisn Bandaríkjanna í Afganistan, segir lélegt skipulag og sóun fjármuna hafa einkennt endurreisnina. Meðal þess sem hann gagnrýndi fyrir þingnefnd var aðstoð við kasmír iðnaðinn. Sex milljónir dala voru greiddar fyrir innflutning á lítilli hjörð sjaldgæfra ítalskra geita. Yfirsýn stjórnvalda var ekki meiri en svo að ekki er víst hvort geiturnar voru matreiddar í stað þess að vera nýttar í kasmírrækt.

Sopko sagðist ekki hafa séð nein raunveruleg merki þess að endurreisnin hafi haft þau hagrænu áhrif sem hún átti að gera eða myndað stöðugleika. Þess í stað skilur hún eftir sig ókláruð, illa skipulögð og vanhugsuð verkefni.

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna segir nokkrar athugasemdir Sopkos ekki eiga við rök að styðjast.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV