Gagnrýni VR hafði ekki áhrif, segir Helgi

22.01.2016 - 12:29
Mynd með færslu
 Mynd: N1
Helgi Magnússon varaformaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna segir gagnrýni VR á stjórnarsetu sína ekki ástæðu þess að hann hættir í stjórn á næsta aðalfundi. VR segi ekki samtökum atvinnurekenda fyrir verkum. Hann segist hafa skilað sínu eftir samtals tuttugu ára stjórnasetu í lífeyrissjóðum.

Ólafía B. Rafnsdóttir formaður VR sagði í Vikulokunum 6. desember síðastliðinn að það væri ekki boðlegt að stjórnarformaður eða varaformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna sitji í stjórnum þeirra fyrirtækja sem lífeyrissjóðurinn sé að versla við. Stjórn VR samþykkti ályktun 13. janúar um að stjórnarmenn í lífeyrissjóðum ættu ekki að sitja í stjórnum fyrirtækja. 

Helgi Magnússon varaformaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna er einnig varaformaður stjórnar N1. Lífeyrissjóðurinn er stærsti hluthafinn í N1. Helgi sagði í viðtali við Fréttastofu í morgun að VR veldi sína fulltrúa í stjórn lífeyrissjóðsins: „Þeir segja samtökum atvinnurekenda ekkert fyrir verkum og við segjum þeim ekkert fyrir verkum. Þannig að þetta hafði engin áhrif á mína ákvörðun og við tökum þetta ekkert til okkar með neinum hætti.“

VR tilnefnir fjóra í stjórn og atvinnurekendur fjóra. Helgi hefur verið tilnefndur af Samtökum iðnaðarins. Guðrún Hafsteinsdóttir formaður samtakanna hefur nú verið tilnefnd í stað Helga. „Ég er búinn að vera í stjórnum íslenskra lífeyrissjóða samtals og samfleytt í 20 ár. Níu ár í Lífeyrissjóði verslunarmanna ýmist sem formaður eða varaformaður. Og mér finnst að 20 ára stjórnarseta í lífeyrissjóðum sé nú alveg nægileg og ég tel alla vega að ég sé búinn að skila mínu. Og tel eðlilegt að aðrir taki nú við. Það er talsvert langt síðan að ég tók þessa ákvörðun.“, segir Helgi. 

Aðalfundur Lífeyrissjóðs verslunarmanna verður 15. mars. Skila þarf inn tilnefningum í stjórn sjóðsins fyrir mánaðamót.

 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV