Gagnrýni á ímynd karlmennskunnar

Bókmenntagagnrýni
 · 
Gagnrýni
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá

Gagnrýni á ímynd karlmennskunnar

Bókmenntagagnrýni
 · 
Gagnrýni
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá
Mynd með færslu
08.06.2017 - 16:35.Halla Þórlaug Óskarsdóttir.Víðsjá
„Orðspor er bók sem fjallar um fortíðina og nútímann á sama tíma, hún fjallar um minnið og karlmennsku en umfram allt fjallar hún um endurskoðun á svari manns við grundvallar spurningum lífsins; hver er ég og hvað hef ég lagt af mörkum?“ er meðal þess sem bókarýnir Víðsjár hefur að segja um nýjustu bók kólumbískar rithöfundarins Juan Gabriel Vasquez, sem er önnur bókin frá Bókaklúbbnum Sólinni.

Andri M. Kristjánsson skrifar:

Bókin Orðspor er eftir kólumbíska rithöfundinn Juan Gabriel Vasquez. Hann hefur þegar getið sér nokkuð gott orð í Evrópu og Norður-Ameríku fyrir fyrri skáldsögur sínar, auk þess sem hann er vel þekktur í Suður-Ameríku. Orðspor er nýjasta og jafnframt sjötta bók Vasquez, þó svo að hann sé tregur til að telja tvær fyrstu bækurnar með í höfundarverkinu. Orðspor kom út á spænsku árið 2016 en birtist nú í íslenskri þýðingu Sigrúnar Á. Eiríksdóttur sem ferst verkið afskaplega vel af hendi. Þetta er fyrsta bókin eftir Vasquez sem þýdd er yfir á íslensku.

Þorir þegar aðrir þegja

Orðspor segir frá skopmyndateiknaranum Javier Mallarino sem hefur í 40 ár teiknað pólitískar skopmyndir í kólumbískt dagblað. Hann er hárbeittur satíristi sem veigrar sér ekki við að gagnrýna hvern þann sem gerist sekur um óréttlæti, skiptir þar engu máli hvort viðkomandi er vinur, óvinur, stjórnmálamaður eða fjölskyldumeðlimur. Mallarino státar sig af því að vera óháður öllum ytri öflum, hann er maðurinn sem þorir á meðan aðrir þegja, hann segir sannleikann í einu og öllu, hann er samviska þjóðarinnar.

Sagan hefst stuttu fyrir hápunktinn á ferli Mallarino, þar sem hann situr í almenningsgarði og lætur bursta skóna sína. Hann er að drepa tímann áður en hann heldur af stað til Teatro Colón, þjóðleikhúss Kólumbíu, til að taka við heiðursviðurkenningu af ríkinu. Mallarino tekur við viðurkenningunni, sem er æðsta orða Kólumbíu, og flytur í kjölfarið háfleyga ræðu um tilgang skopmynda og gildi þeirra fyrir samfélagið.

Daginn eftir athöfnina vaknar hann í sömu sæng og Magdalena, fyrrverandi eiginkona hans. Hann hefur það á tilfinningunni að í þetta skiptið muni þau taka upp þráðinn þar sem frá var horfið. Hún skilur við Mallarino með von í hjarta og boð um hádegisverð daginn eftir. Stuttu eftir að Magdalena er farin er barið á dyrnar, fyrir utan stendur Samanta Leal, kona á aldur við dóttur Mallarino komin til að taka við hann viðtal. Í raun er ásetningur konunnar ekki að taka viðtal við teiknarann, heldur að leita upplýsinga úr fortíðinni.

Minnið í aðalhlutverki

Við innkomu Samöntu í söguna breytist atburðarás bókarinnar töluvert, það sem stefndi í að vera uppgjör 68 ára karlmanns við misheppnað hjónaband og lélegt samband við dóttur sína breytist á stuttum tíma í stærri og siðferðislegri naflaskoðun en lesandinn átti von á. Minnið leikur stórt hlutverk í bókinni og þá sérstaklega hvernig manneskjan gleymir því sem hún vill gleyma og man það sem hún vill muna. Mallarino neyðist til þess að takast á við minningar sem hann hefur gleymt eða hefur lagt sig fram við að gleyma. Hann rifjar upp þessar minningar sem voru honum svo órafjarri með merkilega mikilli nákvæmni og man ótrúlegustu smáatriði.

Það er engu líkara en að hulunni hafi verið svipt af þessum minningum sem voru þrátt fyrir allt greyptar í minni hans. Og til að varpa rýrð á allar þessar minningar ómar tilvitnun í Lewis Carrol eins og leiðarstef í gegnum bókina: „Það er afar fátæklegt minni sem leitar aðeins til baka.“ Í framhaldinu tekur við atburðarás sem leiðir Mallarino inn á braut sjálfskoðunar, á sama tíma og hann rifjar upp fortíðina fær lesandinn að upplifa hvernig Mallarino byrjar að efast um eigið ágæti og jafnframt heilagan tilgang skopmyndanna sem hann teiknar.

Uppgjör við karlmennskuna

Í Orðspori má finna ákveðna gagnrýni á ímynd karlmennskunnar, sem birtist hvað best í Bond myndum síðustu aldar og holdgerist í Sean Connery eða Roger Moore. En hvernig hagar maðurinn sér sem kann karlmennskuna upp á hár þegar krafan um samúð og tilfinningar er ríkari en krafan um kvenhylli og að bíta á jaxlinn? Aðalumfjöllunarefni bókarinnar er uppgjör Mallarino við fortíðina og endurskoðun hans á gildum sínum og trú. Uppgjörið kemur ekki að innan, heldur vegna utanaðkomandi þátta það er vegna Samöntu, þetta er því ekki hefðbundin krísusaga karlmennskunnar á 21. öldinni. Krísunni er eiginlega þröngvað upp Mallarino sem hefði annars lifað í ágætri sátt við sjálfan sig. Í persónu Samöntu sameinast minningar fortíðarinnar og tíðarandi nútímans og krefja Mallarino um svör.

Stór partur af fyrri hluta bókarinnar fer í að mála upp mynd af rómantísku lífi skopmyndateiknarans, lýsa sköpunarferlinu, háleitum hugsjónum og upphefja bóhemlífstíl hans. Þessi kafli bókarinnar getur reynt á þolinmæði lesandans en það er vel þess virði að halda áfram að lesa. Í seinni hlutanum er lesandanum boðið á fremsta bekk niðurrifsins og afbyggingarinnar á því sem var sett fram í fyrri hlutanum. Sagan er nokkuð auðveld aflestrar en gerir á köflum kröfu um mikla athygli lesandans, þá sérstaklega á þeim stöðum sem sagan gerist átakanleg. Orðspor er bók sem fjallar um fortíðina og nútímann á sama tíma, hún fjallar um minnið og karlmennsku en umfram allt fjallar hún um endurskoðun á svari manns við grundvallar spurningum lífsins; hver er ég og hvað hef ég lagt af mörkum?