Gagnrýna loðið og óskýrt orðalag

18.02.2016 - 12:06
Framkvæmdir á vinnusvæði Bjarnarflagsvirkjunar.
 Mynd: RÚV
Íslandshreyfingin gagnrýnir orðalag sem stjórnarskrárnefnd notar í tillögum sínum um ákvæði um auðlindir og náttúru. Vikið sé frá afdráttarlausu orðalagi um nýtingu auðlinda og sjálfbæra þróun úr texta stjórnlagaráðs og í staðinn notað loðnara og óskýrara orðalag.

Í tillögu stjórnlagaráðs hafi verið gert ráð fyrir því að fullt gjald kæmi fyrir nýtingu á auðlindum en miðað við fréttaflutning þá virðist stjórnarskrárnefnd hafa breytt orðalaginu úr fullu gjaldi í eðlilegt gjald, sem Íslandshreyfingin telur háða mati á hverjum tíma. Fullt gjald sé hins vegar skýrt og afdráttarlaust orðalag um að raunveruleg verðmæti eða markaðsverð ráði. Í tillögu stjórnlagaráðs hafi verið talað um að sjálfbær þróun og almannahagur ættu að vera að leiðarljósi við nýtingu auðlindanna.

Íslandshreyfingin gagnrýnir einnig að í stað þess að tala um nýtingu auðlinda sé í tillögu stjórnarskrárnefndar nú talað um að „gengið sé um náttúruna“.  Það sé augljóslega óskýrara. Íslandshreyfingin gagnrýnir þetta og hvetur til rökrænnar og fræðandi umræðu um grundvallarhugtök í umhverfismálum. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV