„Gæti orðið besta niðurstaðan fyrir alla“

21.01.2016 - 19:36
„Þetta gæti orðið besta hugsanlega niðurstaðan fyrir alla og ástæða til að fagna því að þetta fyrirtæki skuli vera tilbúið til að leita lausna með þessum hætti,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra um boð Landstólpa þróunarfélags til að taka hönnun bygginga á reit 2 á Austurbakka til endurskoðunar í samráði við forsætisráðuneytið.

Nokkuð hefur verið deilt um fyrirhugaðar framkvæmdir við Austurbakka í Reykjavík. hafnargarður sem fannst á lóðinni við Austurbakka 2, var friðlýstur í október, að tillögu Minjastofnunar Íslands.  Sigmundur Davíð hefur sagt að þarna stefni í skipulagsslys. Núna hefur Landstólpi boðist til að taka hönnun bygginga á reitnum til endurskoðunar í samráði við forsætisráðuneytið. með það að markmiði að byggingarnar falli að þörfum ráðuneyta Stjórnarráðsins. 

„Stjórnarráðið þarf á húsnæði að halda, það eru að verða ákveðnar breytingar þar. Við munum þurfa að flytja úr húsnæði sem stjórnarráðið hefur haft til umráða en hefur ekki áfram. Þetta fyrirtækið vill fara í framkvæmdir en um leið verður hægt að ná niðurstöðu hvað hönnunina varðar þannig að þetta verði til þess fallið að styrkja sérkenni og heildarsvip miðbæjarins og þannig gagnast þetta öllum, fyrirtækinu, stjórnvöldum og almenningi.“

Aðspurður hvort hann sjálfur komi til með að hafa áhrif á það hvernig húsið líti út svarar hann að ráðuneytið fái arkítekta verði fegnir til að vinna með fyrirtækinu. „Með það að markmiði að þessi uppbygging verði til þess fallin að styrkja sérkenni og heildarmynd miðbæjarins í Reykjavík.“

Sigmundur segir að það hafi verið til skoðunar lengi að finna nýtt húsnæði fyrir stjórnarráðið. Það hafi staðið til árið 2006 að reisa töluvert stórt húsnæði fyrir stjórnarráðið en þeim áformum hafi verið slegið á frest. „En nú er þörfin orðin aðkallandi en það liggur ekkert fyrir um hvaða ráðuneyti færi í þetta húsnæði og hvernig menn myndu skipta öðrum ráðuneytum á annað húsnæði.“