Gæti haft áhrif á sölu Landsbankans

09.02.2016 - 19:04
Fjármálaráðherra segir Borgunarmálið geta haft áhrif á áform ríkisins um að selja hlut í Landsbankanum. Standa hefði átt öðruvísi að sölunni á hlut bankans í Borgun. Fjármálaráðherra áskilur sér allan rétt til að íhuga hvað sé hægt að gera til að vernda hina miklu hagsmuni ríkisins í málinu.

 

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir það augljóst að sala Landsbankans á hlut sínum í Borgun hafi verið klúður þegar bankinn sjálfur hafi sagt að hann þurfi að breyta verklagi sínu. Það hafi blasað við öllum að langeðlilegast væri þegar eignir af þessum toga væru seldar að það gerðist í opnu ferli.
Fullyrðingar hafa gengið á víxl milli stjórnenda Landsbankans og Borgunar um hvað hver hafi vitað og hvenær, og einnig hafa þingmenn látið þung orð falla.

„Það sem mér finnst mjög alvarlegt við þetta er að þetta truflar starfsfriðinn í Landsbankanum, þetta getur líka haft áhrif á áform okkar um að huga að sölu á bankanum,“ segir fjármálaráðherra. 

Því segir hann mjög mikilvægt að fá málin á hreint. Menn geti gert mistök og þá þurfi að ræða það á þeim forsendum. Bjarni segist skilja stjórnendur bankans þannig að þeir hafi viljað standa öðruvísi að málum og kannski sé það það eina sem út úr málinu komi. Ef eitthvað fleira sé óeðlilegt í málinu eins og ýjað sé að í nýjustu fréttum sé mikilvægt að það komi strax í ljós þannig að hægt sé að gera viðeigandi ráðstafanir. Bankasýsla ríkisins er að skoða málið og hefur óskað eftir upplýsingum frá Landsbankanum. Fjármálaráðherra segist ekki útiloka að hann aðhafist eitthvað áður en þeirri rannsókn ljúki því Landsbankinn sé ein verðmætasta eign ríkisins. Hann muni því fara vandlega yfir hvað hægt sé að gera til að fá niðurstöðu í málið sem fyrst. Aðspurður hvort stjórnendur bankans njóti trausts hans, sagði hann þetta.

„ Ja við skulum segja að heildarniðurstaðan úr rekstri Landsbankans hefur verið mjög góð á undanförnum árum hefur verið mjög góð. Við höfum fengið tugi milljarða í árð frá bankanum. Efnahagur bankans hefur styrkst gríðarlega á umliðnum árum.“

Bjarni segir að því þurfi að meta frammistöðu stjórnenda bankans í heildarsamhengi, en standa hefði átt öðruvísi að Borgunarmálinu.

„Á meðan  málið er í frekari skoðun er kannski rétt að vera ekki með neinar yfirlýsingar. En eins og ég sagði áðan, ég áskil mér allan rétt til þess að íhuga hvað maður getur gert til þess að vernda hagsmuni ríkisins í þessu máli vegna þess að þeir eru gríðarlega miklir,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. 

Borgun segir í bréfi sem fyrirtækið sendi Landsbankanum í dag að fyrirtækið hafi aldrei haft ástæðu til að ætla að Landsbankinn væri grandalaus um valrétt vegna sameiningar Visa-fyrirtækjanna.

Borgun hafi kynnt starfsemi sína á tveimur kynningarfundum með Landsbankanum í ágúst 2014. Samkvæmt því sem bankinn hafi sjálfur upplýst Alþingi um, var fjallað um valréttarsamning milli Visa-fyrirtækjanna á bankaráðsfundi þann 7. mars 2013.

Einnig kemur fram í svari Borgunar að félagið fái 6,4 milljarða króna í sinn hlut. Bankastjóri Landsbankans segir að verið sé að fara yfir bréf Borgunar og á því verði tekið í svari bankans til Bankasýslu ríkisins síðar í vikunni. 

 

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV