Fyrsti sigur Koepka á risamóti

19.06.2017 - 09:30
epa06036475 Brooks Koepka of the US celebrates with the trophy after winning the 117th US Open Championship at Erin Hills in Hartford, Wisconsin, USA, 18 June 2017. The tournament will be played 15 June thorough 18 June.  EPA/ERIK S. LESSER
 Mynd: EPA
Bandaríkjamaðurinn Brooks Koepka vann sinn fyrsta sigur á risamóti í golfi þegar hann sigraði á opna bandaríska, US open, sem lauk í gærkvöld. Hann lék hringina fjóra á 16 höggum undir pari og jafnaði met yfir lægsta skor á mótinu frá upphafi.

Hörð barátta var milli þriggja kylfinga um sigurinn þar til Koepka fékk þrjá fugla í röð frá 14. holu og svo fór að hann varð fjórum höggum á undan næstu kylfingum, Japananum Hideki Matsuyama og Bandaríkjamanninum Brian Harman sem urðu jafnir í 2. sæti. Koepka lék lokahringinn á 5 höggum undir pari og fékk 2,1 milljón dollara í verðlaunafé, 212 milljónir króna.

Koepka er 27 ára Flórídabúi sem varð atvinnumaður árið 2012. Fram að sigrinum í gær, sem er hans fyrsti á risamóti, hafði hann tvisvar sigrað á Evrópumótaröðinni og einu sinni á PGA mótaröðinni.

Mynd með færslu
Hans Steinar Bjarnason
íþróttafréttamaður