Fyrsti bikarúrslitaleikur Þórs

13.02.2016 - 09:00
KR og Þór frá Þorlákshöfn mætast í bikarúrslitaleik karla í körfubolta í dag. KR hefur ekki unnið bikarinn í 5 ár en Þór leikur til bikarúrslita í fyrsta sinn.

KR hefur oftast orðið bikarmeistari í karlaflokki eða 10 sinnum en 5 ár eru síðan KR ingar unnu bikarinn síðast. Þeir léku til úrslita í fyrra en töpuðu úrslitaleiknum fyrir Stjörnunni á dramatískan hátt eins og rifjað er upp í innslaginu sem sjá má í spilaranum hér að ofan.

Mótherjar KR-inga í bikarúrslitaleik karla núna eru Þórsarar frá Þorlákshöfn sem leika nú í fyrsta sinn í bikarúrslitum. Það er vel við hæfi á aldarfjórðungsafmælinu sem félagið fagnaði á dögunum.

Bikarúrslitaleikur KR og Þórs hefst klukkan 16:30 í dag í beinni útsendingu á RÚV.

Mynd með færslu
Hans Steinar Bjarnason
íþróttafréttamaður