Fyrsta Tahharush árásin í Evrópu

epa05088841 Women protest against sexism outside the cathedral in Cologne, Germany, 05 January 2016. After assaults on women outside Cologne main station at New Year, little is currently known about the perpetrators.  EPA/OLIVER BERG
 Mynd: EPA  -  DPA
Andstæðingar Angelu Merkel kanslara voru fljótir að tengja hrottalegar árásir sem framdar voru í Köln á Nýársnótt flóttamannavandanum. Ákveðnir fjölmiðlar hafa fullyrt að „hin arabíska hópnauðgun“, Tahharush Gamea, sé komin til Evrópu og komin til að vera. Er þetta raunverulegt fyrirbæri? Þöggun lögreglunnar í Köln, í kjölfar árásanna, hefur verið gagnrýnd og nú sætir lögreglan í Stokkhólmi rannsókn vegna samskonar þöggunarmáls. Getur slík þöggun einhvern tímann verið réttlætanleg?

Hert öryggisgæsla á torginu

Einkennisklæddir lögreglumenn setja svip sinn á torgið framan við aðaljárnbrautarstöðina í Köln. Öryggisvarsla á torginu hefur verið hert til muna eftir árásirnar sem framdar voru um áramótin. Á nýársnótt skapaðist ófremdarástand á þessu fjölfarna torgi, rúmlega þúsund ölvaðir karlmenn frá Norður-Afríku og Miðausturlöndum söfnuðust þar saman, skutu flugeldum í allar áttir, króuðu konur af, áreittu þær kynferðislega og rændu þær. 

Helmingur kæranna lýtur að kynferðislegu ofbeldi

Svipaðar árásir voru framdar í Stuttgart, Berlín, Düsseldorf og fleiri borgum. Á Nýársdagsmorgun sendu lögregluyfirvöld í Köln frá sér tilkynningu þar sem fullyrt var að nóttin hefði farið friðsamlega fram. Það var fjarri sanni, líkt og seinna kom á daginn. Lögreglan hafði í nógu að snúast um nóttina, ástandið varð henni ofviða og hún var ófær um að vernda borgara. Næstu daga hrúguðust kærurnar upp. Nú eru þær orðnar 560 talsins, tæpur helmingur þeirra lýtur að kynferðislegu ofbeldi. Lögreglustjóra borgarinnar hefur verið vikið úr starfi tímabundið. Viðbrögð lögreglu og úrræðaleysi voru gagnrýnd harðlega og sömuleiðis að hún skyldi veita rangar upplýsingar fyrsta daginn eftir árásirnar. Þá hafa fjölmiðlar verið gagnrýndir fyrir að taka seint við sér.

„Allt fór vel fram“

Svipað mál hefur nú komið upp í Svíþjóð. Hópur manna frá Afganistan veittist að fjölda stúlkna á tónlistarhátíðum í Stokkhólmi, árin 2014 og 2015, og nauðgað tveimur. Þrátt fyrir það greindi lögregla frá því að allt hefði farið vel fram, að eigin sögn til þess að Svíþjóðardemókratar fengju ekki byr undir báða vængi. Lögreglan í Stokkhólmi sætir rannsókn vegna málsins. 

Gerir greinarmun á aðstæðum í Svíþjóð og Þýskalandi

Getur það að þagga slík mál í þeim tilgangi að koma í veg fyrir glundraða eða uppgang fasisma verið réttlætanlegt? Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, stjórnsýslufræðingur og meðlimur félagasamtakanna Gagnsæis, segir í samtali við Spegilinn að gera þurfi vissan greinarmun á aðstæðum í Svíþjóð annars vegar og í Þýskalandi hins vegar. Ástandið í Þýskalandi sé fordæmalaust og lögregla óttist mögulega að það slái í brýnu á milli hópa í samfélaginu, þess vegna hafi hún hugsanlega valið að gera sem minnst úr árásunum. Í Svíþjóð sé annað uppi á teningnum, þar virðist sem upplýsingum hafi verið haldið leyndum til þess eins að halda ákveðnum pólitískum öflum niðri, með því lýsi lögreglan yfir vantrausti á lýðræðið. Hún segir rangt að leyna upplýsingum, en að aðgerðir lögreglunnar í Þýskalandi séu þó skiljanlegri en lögreglunnar í Svíþjóð.

Þöggun geri illt verra

Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands, segir að þöggun geri illt verra í svona aðstæðum. „Það er nú ekki ásættanlegt að lögreglan eða stjórnvöld fari með rangar upplýsingar eða leyni fólk upplýsingum til þess að hafa áhrif á umræðuna og þegar það gerist og svo þegar hið rétta í málinu spyrst út hefur það yfirleitt verri afleiðingar í för með sér heldur en ef menn höfðu greint rétt frá í upphafi. Allar tilraunir til að hylma yfir hvort sem það varðar kynferðislegt áreiti eða ofbeldi kemur í bakið á lögreglu og stjórnvöldum.“

Óttast aukin átök

Baldur telur að þöggunina megi að einhverju leyti rekja til þess hversu eldfimt ástandið er í Þýskalandi. „Lögreglan í báðum löndunum viðurkennir óbeint að hún segir ekki allan sannleikann til þess að ýta ekki undir ólgu í samfélaginu, það verði ekki enn meiri andstaða en er í garð innflytjenda og hælisleitenda og ætlar þannig með beinum hætti að hafa áhrif á umræðuna. Lögregluyfirvöld óttast augljóslega aukin átök í samfélaginu á milli innflytjenda og þeirra sem eru á móti því að taka við fleiri flóttamönnum.“

Má gera ráð fyrir árekstrum vegna ólíks gildismats

Hann bendir á að árásir á innflytjendur og flóttamenn hafi stóraukist, svo sé nú að koma á daginn að það sé eitthvað um að flóttamenn ráðist á konur með ofbeldisfullum hætti. Sama sé í Svíþjóð. „Ofbeldi hefur aukist og líklega er það meira en við vitum af, eitthvað er ekki tilkynnt og hugsanlega leynir lögregla einhverju. Það má alveg gera ráð fyrir því að þegar það koma svona stórir hópar fólks í samfélög, þó þau séu fjölmenn, fólk sem er með ólíkan bakgrunn og hefur annað gildismat. Margir líta öðruvísi á konur, samkynhneigða og transfólk, það má alveg gera ráð fyrir því að það verði árekstrar á milli þessara hópa eða þeirra sem hafa önnur viðhorf en almennt tíðkast í samfélögum.“

Þýskt samfélag klofið

Þýskt samfélag er þegar klofið í afstöðu sinni til flóttamannastefnu Angelu Merkel en fyrir tilstilli hennar hefur rúm milljón flóttamanna komið til landsins síðasta ár. Ólgan í kjölfar árásinna hefur verið mikil. Sumir mótmæla kvenhatri og útlendingahatri samtímis, aðrir mótmæla stefnu Merkel og halda því fram að flóttamenn ógni samfélaginu og konum sérstaklega. Merkel hafi ekki hugsað stefnu sína til enda.

Fyrr í vikunni var ráðist á sýrlenska og pakistanska menn í Köln, miðstöð múslima í borginni hafa borist ótal hótanir, símleiðis og með tölvupósti, og í dag var kveikt í flóttamannaheimili í borginni Ulm í Baden-Württemberg. Ein af mörghundruð íkveikjuárásum sem framdar hafa verið síðastliðið ár.

Heilagt nauðganastríð

Hugtök á borð við nauðgaraflóttamenn ( e. Rapefugees) og Tahrir-væðingu Þýskalands (vísun í árásir gegn konum á Tahrir-torgi í Egyptalandi á tímum arabíska vorsins) hafa skotið upp kollinum og birst á mótmælaskiltum. Holger Münch alríkislögreglustjóri Þýskalands segir í samtali við þýska blaðið Die Welt að hópárásir á borð við þær sem áttu sér stað í Köln um áramótin séu þekkt vandamál í Arabalöndum, en að þær hafi ekki átt sér stað í Þýskalandi áður. Þær verði í mannþröng; á fjöldafundum eða mótmælum. Brotamenn króa fórnarlömb af, káfa gróflega á þeim innanklæða sem utan, stela af þeim verðmætum og nauðga þeim jafnvel. Lýsingarnar eru í samræmi við lýsingar þýskra kvenna sem urðu fyrir árásunum. Þær segjast hafa horfið í fjöldann, enginn hafi getað komið þeim til hjálpar. Þær óttuðust að þeim yrði nauðgað. Spiegel TV ræddi við eina þeirra. 

Þýska alríkislögreglan hyggst samkvæmt frétt Die Welt gefa út fyrirmæli um hvernig skuli taka á hópáreitni og hópárásum. Upplýsinga verður aflað um sambærileg tilvik og út frá því unnin viðbragðsáætlun.

Egypsk vinkona kannast við fyrirbærið

Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, mannfræðingur, bjó lengi í Arabalöndum og þekkir vel til þar. Hún segir egypska vinkonu sína kannast vel við svona árásir, þetta hafi til dæmis átt sér stað í Kaíró á tímum arabíska vorsins. „Þetta gerðist á Tahrir-torgi í Arabíska vorinu þar sem konur voru teknar fyrir. Það sem mér sýnist fyrirbærið vera, þetta er örugglega af svipuðum toga og lynching, það gerðist eftir að þrælunum var gefið frelsi í Bandaríkjunum og hvítir menn í pirringi sínum hengdu þá, án dóms og laga vegna þess að þeir völsuðu um eins og þeir væru fínir menn.“

Blanda af kynferðislegri áreitni og múgæsingi

Hún segir þetta blöndu af kynferðislegri áreitni og múgæsingi. „Rosalega toxic blanda, þegar fólk fer að haga sér eins og hópverur án þess að vera gagnrýnið. Þetta er refsing gagnvart þeim sem þú telur óæðri þér en þeir haga sér ekki í samræmi við það.“

Hún telur að karlarnir sem réðust til atlögu í Köln upplifi sig sem undirmálsmenn. „Þarna eru bara einhverjar vestrænar konur sem eru endalaust að vilja upp á dekk og þetta er einhvers konar hóprefsing gagnvart einhverjum sem þú telur að ógni stöðu þinni, þekkt fyrirbæri.“

Ekki mikið um þetta á Arabíuskaga

Vinkona hennar frá Katar sagði þessar árásir sem ganga undir heitinu Taharrush gamea ekki tíðkast á Arabíuskaga en í vægara formi í Sádí-Arabíu, þar verði konur sem leyfa sér að fara einar út oft fyrir áreiti. Fullyrðingar um að þessi gerð ofbeldis þekkist um allan Arabaheiminn séu því rangar. „Mig grunar að þetta gerist á stöðum þar sem eru karllæg samfélög með stóra undirstétt, menn sem telja sig ekki hafa nein tækifæri og vera beittir órétti.“

Ekkert með Íslam að gera

Hún skrifar ekki upp á útskýringar sem lúta að ósamrýmanlegum gildum Vesturlanda og Araba. „Það er stórkostleg einföldun, þetta er í raun svona self fulfilling prophecy, það er búið að segja að eitthvað gerist og það gerist. Þetta hefur bara með karllægni í menningu að gera. Þetta hefur ekkert með Íslam að gera. Íslam er hugtak sem er notað í dag til að aðskilja frá Vesturlöndum, ástæðan fyrir flóttamannastraumnum eru stríð sem Vesturlönd sannarlega hófu, mjög ójöfn stríð.“

Hún segir að Vesturlandabúar hafi hvimleiða tilhneigingu til þess að líta á flóttamenn og fólk úr öðrum menningarheimum sem einsleita hópa, með einsleitar skoðanir í stað einstaklinga. „Við fáum að vera einstaklingar, ég ber til dæmis enga ábyrgð á því sem Breivik gerði,“ segir hún. 

Fyrirfram skipulagt?

Sumir hafa haldið því fram að árásirnar hafi verið skipulagðar fyrirfram. Listi sem fannst á vettvangi rennir stoðum undir það, á honum var að finna setningar á borð við „þú ert með stór brjóst“ og „ég ætla að kyssa þig“ á bæði þýsku og arabísku. 

Dómsmálaráðherra Þýskalands, Heiko Maas, lýsti því yfir í samtali við dagblaðið Die Welt á sunnudag að allt benti til þess að um skipulagðar árásir væri að ræða. Þá var þar vísað til lögregluskýrslna um að karlar af Norður-Afrískum uppruna hefðu hvatt til þess á samfélagsmiðlum að sem flestir söfnuðust saman á torginu á þessum tíma. Hann tók sterkt fram að uppruni eða ólík menning gæti aldrei réttlætt gjörðir mannanna en varaði fókl jafnframt við því að setja alla undir sama hatt, álykta um innræti fólks út frá uppruna þess. Glæpirnir á nýrársnótt væru engin sönnun þess að fólk frá Miðausturlöndum eða Norður-Afríku gæti ekki aðlagast þýsku samfélagi. Það reyndu sýrlenskir karlmenn sem söfnuðust saman við járnbrautarstöðina í Köln, báðu konur afsökunar á framferði manna frá þeirra heimshluta, og gáfu þeim blóm líka að gera. 

Hælisleitendur meðal grunaðra

Enn vantar þónokkuð upp á að öll kurl séu komin til grafar. Samkvæmt Business Insider eru um 30 grunaðir um aðild að árásunum, þar af eru 22 hælisleitendur, meirihlutinn frá Alsír og Marokkó en einnig Sýrlendingar.

Lögreglan segir marga hinna grunuðu vera góðkunningja lögreglu, menn sem þeir hafi haft veður af um skeið. Der Spiegel greinir frá því að í mörgum stærri borgum Þýskalands hafi lögregla haft þónokkur afskipti af ungum körlum frá Norður-Afríku, það þýði ekki að afneita því. Í Düsseldorf hafi yfir 2000 manns frá Norður-Afríku gerst brotlegir við lög síðastliðið ár. Helmingur þeirra er frá Marokkó. Ungir karlmenn frá þessum heimshluta hafa einnig verið til vandræða í Köln en einkum gerst sekir um vasaþjófnað. 

Merkel hefur lýst því yfir að árásarmennirnir muni þurfa að gjalda fyrir gjörðir sínar óháð því hverrar þjóðar þeir séu. Þá hefur hún lagt til að lögum verði breytt þannig að hægt verði að vísa þeim flóttamönnum sem fremja alvarleg lögbrot úr landi.

 

 

Mynd með færslu
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi